06.07.1917
Efri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg verð að játa það, að jeg bjóst ekki við, að svo hart mundi verða spyrnt við þessu frumvarpi í þessari umræðu, sem raun hefir á orðið. Jeg bjóst ekki við, að neinn mundi hafa á móti því, að málið yrði að minsta kosti athugað í nefnd, því að það er alger misskilningur, að málið eigi ekki heima á þinginu. Sveitarstjórnarlögin mæla einungis fyrir um það, hvernig fara eigi með mál þegar á að skifta hreppi, en alls ekki þegar bæjarfjelag á í hlut. Sýslunefndir hafa heldur ekkert úrskurðarvald um slíkt. Þær eiga einungis að segja sitt álit. Og í þessu máli hefir verið leitað álits sýslunefndarinnar, en hún er vitanlega sjálfráð um það, hvort hún lætur uppi sitt álit. Það er þess vegna algerlega rangt, sem háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) þóttist geta lesið úr 72. gr. sveitarstjórnarlaganna. Annars hefir aldrei verið farið neitt eftir tillögum sýslunefnda í slíkum málum. Og Gullbringusýsla hafði t. d. alls ekki atkvæði um það, hvort Hafnarfjörður skyldi verða kaupstaður. Hjer veltur á því, hvað batar þá, sem saman vilja ganga.

Jeg gat þess áðan, að breyting þessi hefði verið samþykt í hreppsnefnd Eyrarhrepps. Jeg fer þar með rjett mál, og er það algerlega röng staðhæfing hjá háttv. 4. landsk. þingmanni. (G. G.), að hún hafi verið feld með jöfnum atkvæðum. Skil jeg, satt að segja, alls ekki, að jafnskýr maður skuli fara svo skakt með. Og minna mátti ekki heimta en að hv. þm. (G.G.) hefði kynt sjer skjöl þau, sem lúta að málinu, úr því að hann andæpti því. Hefði hv. þm. gert þetta, þá hefði hann komist að raun um, að tillaga þessi var samþykt í sveitarstjórninni með 3 atkv. gegn 3 og úrskurðaratkvæði oddvita.

En hvað sem öðru líður, þá er aðalkjarni þessa máls vitanlega sá, hve nauðsynin á stækkun kaupstaðarins er brýn. Það tjáir lítið að vitna til sameiningar á Reykjavík og Seltjarnarnesi, því að Seltirningar hafa aldrei viljað hana. Hitt er áreiðanlegt, að Reykjavík hefir skaðast svo að miljónum króna skiftir á því að hafa ekki tekið Nesið fyrir löngu, og það tjón verður aldrei bætt.

Þessi nauðsyn Ísafjarðar á því að fá meira land stendur í sambandi við hinn nýja atvinnuveg, sem þar hefir hafist á síðari tímum, síldveiðina, sem nú eykst ár frá ári. Kaupstaðurinn hefir minst uppland allra bæja á landinu, er í hreinni landsveltu, Hann þarfnast þess vegna átakanlega að fá meira land, enda er nú fram komið hjer annað frumvarp á þinginu um útfærslu verslunarlóðar kaupstaðarins í Eyrarhrepp. Væri það álíka viðrinislegt að láta verslunarlóðina vera í tveim þinghám og ef kaupstaðarmörkin hjer væru um Fúlutjörn.

Það eitt er víst, að skiftingin hefir óbætanlegt tjón í för með sjer fyrir báða parta. Þörfin er svo brýn á að kippa þessu í lag, og hættan er svo mikil við að láta þetta óbreytt, að slíkt verður ekki tölum talið.

Annars furðar mig á því, að háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) ætlar sjer að fara að knjesetja Hnífsdæli. Þeir eru dugnaðar- og atorkumenn og fjáðir vel og bera fult skyn á fjármál sín, og í þeim þykir oss Ísfirðingum gott mannkaup; enda hafa þeir stofnað til þessa máls með fullráðnum huga. Mörg ár eru liðin síðan þetta mál bar fyrst á góma. Það er svo langt frá því, að þeir hafi óskað að verða sjerstakur verslunarstaður, að það eru þeir, sem áttu frumkvæði að sameiningunni, enda mundu hafa stórgagn af. Af skjölum málsins, sem liggja hjer frammi á þingi, má sjá, að Ísfirðingar og Hnífsdælir hafa þegar eitt stórmerkt sammál, en það er raflýsing.

Hafa Eyrhreppingar trygt sjer fossaflið dýru verði, en bænum láta þeir það eigi falt nema sameinað sje; svo fast sækja þeir hana. Er þetta eitt nóg til að sýna, hve brýn og bráð þörfin er.

Um Arnardal er það að segja, að þar var mikil verstöð í gamla daga. Nú er það alt í kalda koli, og Arndælir vita, sem er, að þeir eiga ekki uppreisnar von, nema með stuðningi Ísfirðinga.

Þegar alls þessa er gætt, og hitt er einnig athugað, að tillaga þessa efnis fjekk 225 atkv. gegn 47 á fundi á Ísafirði, og 112 gegn 24 í Eyrarhreppi, þá er ekki svo að sjá, sem hv. 4. landsk. þm. (G.G.) geri mikið úr þjóðræðinu hjer á landi, er hann vill ekki einu sinni lofa málinu að komast í nefnd, til athugunar þar. Annars er óþarft að ræða frekar um málið á þessu stigi. Jeg vona fastlega, að það fái að komast í nefnd, og þá fyrst, er það kemur úr henni, er rjett að ræða það frekar.