18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. Barð. (H. K.) virðist hafa misskilið 1. brtt. Hún fer einmitt fram á að bæta kjör hreppstjóra. (H. K.: Það er engin bót) Það er þó betra að fá dálitla borgun fyrir 5 km. á sjó en ekki neitt, og ef lengra er farið, verður borgunin tiltölulega meiri, en eftir frv. stjórnarinnar var ekki gert ráð fyrir neinum ferðakostnaði fyrir alt að 5 km. á sjó og 10 km. á landi.

Nefndin tók flokkunina til athugunar, en varð að álíta, að yfirleitt væri meira að gera í fjölmennari hreppunum, og reglur verður að setja um hið algenga og almenna. Um undantekningar verður erfitt að setja reglur.

Þótt rjett sje það, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) sagði um uppboðin, þá gleymdi hann því, að nú má óhætt gera ráð fyrir, að fleiri og stærri uppboð komi til hreppstjóranna kasta hjer eftir en hingað til, og þá verður sú tekjugrein þeirra stærri en áður. Jeg sje svo ekki ástæðu til fleiri orða út af þessum aths.