26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2930)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. minni hl. (Hannes Hafstein):

Jeg hefi skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara. Jeg get ekki verið samþykkur meiri hlutanum um það, að frv. verði samþykt að svo komnu máli. Það er fullkomlega næg ástæða fyrir því, að frv. verði ekki látið fara lengra, að sýslunefndin hefir ekki látið álit sitt uppi um sameininguna.

Þegar á að taka stóran hrepp og leggja hann undir annað umdæmi, þurfa báðir aðiljar að láta í ljós vilja sinn á þeirri ráðstöfun. Það er mál, sem tveimur kemur við. Jeg skal ekki segja neitt um það, hverjar tillögur sýslunefndarinnar kunni að verða. En hingað til hafa að eins tveir nefndarmanna viljað veita sameiningunni fylgi sitt.

Fyrir utan þessar ástæður er þess að gæta, að málsvari Norður-Ísafjarðarsýslu er nú ekki lengur til svara. En hann hafði mjög ákveðnar skoðanir í þessu máli, og var eindregið á móti breytingunni.

Jeg álít því, að það sje ekki hyggilegt af hv. deild, að samþykkja frumvarpið að svo stöddu. Og jeg vil leyfa mjer að leggja það til, að málinu sje vísað frá með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

Með því að sýslunefndin í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem með frumvarpi þessu er farið fram á að skerða, hefir enn ekki látið uppi tillögur sínar, og kjördæmið er sem stendur þingmannslaust, telur deildin ekki rjett, að mál þetta gangi lengra að svo stöddu, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.