26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (2931)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Guðjón Guðlaugsson:

Skoðanir mínar á þessu máli hafa ekki breyst mikið síðan við 1. umr. Jeg var þá þeirrar skoðunar, að frumvarpið væri ekki þannig vaxið, að það bæri að samþykkja, heldur taldi jeg rjettast að fella það þá þegar. Og úr því að jeg hafði þessa skoðun þá, vil jeg einnig nú, að málið sje sem fyrst úr sögunni. Mjer er reyndar meinlaust, að málinu sje vísað frá með rökstuddri dagskrá. En jeg álít samt, að ekki beri að sýna því slíka vægð.

Í fyrsta lagi vil jeg gera þá athugasemd sem nauðsynlega, að kjördæmið, sem hreppurinn liggur í, er nú þingmannslaust. Og jeg skal geta þess enn fremur, að þingmaðurinn (Sk. Th.) bað mig að gera alt það, sem jeg gæti, til þess, að frumvarpið fjelli alveg úr sögunni. Hann var stórlega mótfallinn sameiningunni. Áleit hana engum að gagni, en sýslunni til skaða og skapraunar.

Í öðru lagi er það, að nú hafa bæst þrjár áskoranir við þær þrjár, sem fyrir voru við 1. umr. málsins, um að frumvarpið verði felt. Ein áskorunin er undirskrifuð af 80 manns úr hlutaðeigandi hreppi. Þeir skora allir á þingið að samþykkja ekki frumvarpið, en fara hins vegar fram á, að Eyrarhreppi verði skift í 2 hreppa, alveg gagnstætt við frumvarpið. Nú hafa þess vegna allir hrepparnir kringum Djúpið sent áskorun, nema að eins einn. Jeg hefi því miður eigi haft enn tækifæri til að kynna mjer skjölin, og man því ekki glögt undirskrifendafjöldann. En hrepparnir eru 6 að tölu, Nauteyrarhreppur, Ögurhreppur, Snæfjallahreppur, Súðavíkurhreppur, Reykjarfjarðarhreppur og Eyrarhreppur. Þeir leggjast allir eindregið á móti sameiningunni og skora á þingið, að samþykkja alls ekki frumvarpið.

Þetta finst mjer alt annað en bending um, að sameiningin sje nauðsynleg. Mjer finst þinginu vera stór vansæmd að samþykkja frv., þvert ofan í áskoranirnar. Og jeg get ekki sjeð, að hjer sje um annað að gera en að fella frv.

Hv. 1. landsk. þm. (H. H.) gat þess, að sýslunefndin hefði skifst í tvo flokka um þetta mál. En síðar sameinaði hún sig í stórkostlegum meiri hluta um að fresta málinu.

Það er því í rauninni alt mótmæli gegn frv. Það eru frekar mótmæli frá sýslunefndinni gegn því, að frv. sje gert að lögum, þar sem hún frestar málinu, og því er mótmælt af 3 af 7 hreppsnefndarmönnum Eyrarhrepps. En það væri nú ekki svo mikið, ef það væri eindreginn vilji Ísfirðinga, að þetta frv. gengi fram, en mjer er það ósköp vel kunnugt, að svo er ekki, því að jeg var á Ísafirði, er málið var í undirbúningi þar. Það skifti tugum manna á Ísafirði, er fóru fram á, að jeg stuðlaði að því, að þetta frv. fengi ekki fram að ganga. Allir vildu þeir gjarnan fá jarðirnar inni í Skutilsfirði, en sumir álitu það einkis virði, jafnvel heimsku, að vera að berjast við að ná í Hnífsdal og Arnardal. Það má því segja, að frv. þessu sje mótmælt frá öllum málsaðiljum nema Ísafjarðarðarkaupstað, og þaðan hafa engin meðmæli komið fram með því, nema frá bæjarstjórninni. Annarsstaðar frá hefir, að því er mjer er kunnugt, ekki komið fram nein beiðni um að styðja frv.

Bending er það og, um að ekki sje sem heppilegast að samþykkja frv., að sá maður, sem kunnugastur er þar, að undanskildum háttv. flm. (M. T.), leggur einmitt á móti málinu. En rnjer skilst svo, sem hv. flm. (M. T.) sje talsvert „interesseraður“ í málinu, og svo er það í öðru lagi, að jeg hygg, að hann líti svo skrítilega á málið í mörgum atriðum, að það verði úr því nokkurskonar misskilningur. Sem dæmi þess skal jeg minnast á það, sem háttv. flm. (M. T.) var að minnast á, að þar væri gott sauðland, mjólkurland, beitarland o. fl. (M. T.: Jeg sagði ekki sauðland). Ef þm. hefir ekki svo mælt, skal jeg bæta því við, því að þar er gott sauðland.

En hvað kemur þetta í raun og veru málinu við? Þeir, sem eiga jarðirnar þar í kring, búa á þeim eftir sem áður, og það er ekki unt að kúga þá til að selja mjólk til Ísafjarðarkaupstaðar, og það hefir engin áhrif á það, í hvaða sveitarfjelagi þeir eru. Það sjá því allir, að ummæli þingmannsins (M.T.) um mjólk voru hjegóminn einber, þótt þau hins vegar að sumu leyti, t. d. um nauðsyn mjólkur, væru rjett. Sama er að segja um beitarlandið. Jarðeigendur geta afgirt lönd sín og bannað öðrum að beita þau. Það getur enginn bannað. Þetta kemur því heldur ekkert málinu við. Þá sagði háttv. flm. (M. T.), að ef frv. næði fram að ganga, þá mundi mjólkin aukast í Ísafjarðarkaupstað. Jeg býst nú við því, að þótt svo yrði, þá mundi Ísafjörður fá lítið af mjólk úr Hnífsdal, sem er stærðar sjóþorp með tveimur verslunum og mikilli útgerð.

Nei — mjólkurskorturinn á Ísafirði batnar ekki við þetta, en það er ekki nema eðlilegt, að Ísfirðingar vilji fá yfirráð yfir jörðunum inni í Skutilsfirði. Það er aðalatriðið, að Ísafjörður gæti fengið þær jarðir keyptar, og ósk um það er í alla staði rjettmæt, því að þá fær bærinn yfirráð yfir jörðunum, en þau fær hann ekki með sameiningunni einni. Slíkt frv. lá hjer fyrir í háttv. deild, þar sem bærinn fjekk keyptan hluta úr jörðinni Tungu. Það var rjetta leiðin, enda hefir hv. deild samþykt það fyrir sitt leyti.

Þá vil jeg minnast á nál. meiri hl. — Það er hreinasta gersemi.

Þar segir svo:

„Í sveitarstjórnarlöggjöf vorri hefir sú stefna orðið æ ríkari með ári hverju, að láta hjeruðin ráða sem mestu um mál sín, án íhlutunar löggjafarvaldsins . .

Er það að láta hjeruðin ráða sem mestu um mál sín, þegar tekið er beint fram fyrir hendur þeirra, gegn öllum mótmælum, sem fram geta komið. Þetta er ástæða, sem jeg held að hefði verið rjett, ef minni hluti nefndarinnar hefði viljað segja nokkuð um málið, því að það styður hans mál, en alls ekki meiri hlutans.

Jeg fæ ekki skilið það, sem sagt er í nál. meiri hl. að Norður-Ísafjarðars. hafi jafnvel hag af því að missa einhvern stærsta og besta hreppinn úr sýslufjelaginu, en um þetta segir svo í nefndarálitinu:

„Þvert á móti er Norðursýslunni verulegt hagræði að því að losna við öll útgjöld til sýsluvegarins frá Ísafirði og vestur á Breiðdalsheiði.“

Jeg skil ekki þessa ástæðu, og mjer finst þar fylgja böggull skammrifi. Ef sýslufjelagið losnar við þessa vegagerð, þá missir það og af tekjunum, og jeg veit ekki, hvort betur má sín. Og eitthvað kynduglega er málið meðhöndlað af meiri

hluta nefndarinnar. Jeg fæ ekki skilið, eftir hvaða lögum Ísafjörður er skyldur til að kosta vegi í öðrum hreppum, og ekki er það ætlunin að leggja Bolungavík eða Hólshrepp undir Ísafjörð, svo að sýslan verður eftir sem áður að kosta heiðarveginn.

Það er mjög dýrmæt og mikilvæg upplýsing um það í nefndarálitinu, að bærinn standi í miðri sveit — jeg tók það raunar fram um daginn við 1. umr. — svo að hvergi sje lengra en 5 kílómetrar. 5 kílómetrar á hvern veg, og strandlengja kaupstaðarins nú, 1—2 km., verður því 11—12 km., sem þessi útkjálkakaupstaður á að ná yfir. Hann fer að slaga hátt upp í Lundúnaborg á lengdina, þótt breiddin verði ekki eins. Þetta hefir sjálfsagt átt að vera til að styðja fremur málstað meiri hl., en mjer finst, að hún hefði heldur átt að koma frá minni hlutanum, og þess vegna lek jeg hana upp.

Jeg hefi svo ekki meira að segja um þetta mál. Málið er ekki svo mikilsvert að rjett sje að gera því hátt undir höfði. Mjer finst það liggja beinast við að fella frv. strax,

Málið snertir marga, og flestir af þeim óska þess, að það verði felt. Það sýna þessi mörgu og margvíslegu mótmæli.