26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (2932)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Kristinn Daníelsson:

Jeg hefi skrifað undir álit meiri hluta nefndarinnar, og vil jeg láta fylgja því áliti nokkur orð, þótt það sje ef til vill óþarfi, og jeg viðurkenni, að það sje góð og gild regla, að frsm. einn útskýri málið fyrir nefndina. En aðstaða hv. frsm. meiri hl. (M. T.) í þessu máli er nokkuð sjerstök, þar sem hann er bæjarfógeti í kaupstað þeim, sem hjer ræðir um, svo að það getur litið svo út, enda ekki trútt um, að því hafi verið að honum beint, að hann sje hlutdrægur í málinu. Það ætti raunar að vera útilokað, því að hann er líka yfirmaður þessa hrepps, og ber því að gæta hagsmuna hans, ekki síður en annara sveitarfjelaga í umdæmi sínu. Það má líka minna á það, hversu mikið mörg bæjarfjelög og kauptún eiga upp að unna ötulum yfirmönnum, er láta sjer ant um hag þeirra. Hjer sitja eflaust margir menn, er skilja til fulls áhuga frsm. meiri hl. (M. T.) á að gagna stað sínum, svo sem fremst er kostur á.

Það er álitamál, hversu mikinn hagnað Eyrarhreppur hefir af sameiningunni, en að minsta kosti hygg jeg, að margir okkar mæli með því, enda eru þess dæmi annarsstaðar frá, að það hefir reynst gott fyrir lítið sveitarfjelag að sameinast öflugu kaupstaðarfjelagi. Og allur vafi í þessu efni ætti að hverfa, þegar á það er litið, hversu mikið fylgi þetta hefir haft í báðum þessum sveitarfjelögum. Og ekki efa jeg, að þótt þetta mál verði tafið nú, þá komi það til þingsins aftur og aftur, uns það verður samþykt. Á það bendir reynslan ótvírætt.

Jeg sje ekki, að það geti verið nema ein ástæða, sem geri það rjettmætt að tefja málið á þessu þingi. Og það er, að hv. Alþingi dragi í efa, að óskir þær, er komið hafa fram um sameininguna, sjeu alvarlega meintar. En jeg sje ekki, að það sje nein ástæða til að ætla, að svo sje.

Mótþrói sá, sem er á móti þessu frv., er aðallega úr 3 áttum.

Í fyrsta lagi úr þeirri átt, sem í raun og veru er fyrir utan aðilja þessa máls. Úr þeirri átt finst mjer vera rjett að telja kapp það, er hv. 4. landsk. þm. (G. G.) leggur á að fella málið; virðist það allóeðlilegt, þar sem hann vill forða frá sameiningu tveimur sveitarfjelögum, sem sjálf vilja sameinast.

Í öðru lagi mótspyrna frá hreppnum. Það er æfinlega svo, þegar slíkt mál sem þetta er á baugi, að fáeinir bæir, eða eitthvert lítið bygðarhverfi, verða á móti því, t. d. ef sameina á tvær sóknir. Og þetta getur verið alt eins, þótt það sje mjög almennur vilji allra annara, að breytingin komist á. Hjer er það líka svo, að slíkur mótþrói er í þessu máli, þótt mjer virðist ekki kveða mikið að honum.

Það lítur svo út, sem eitt bygðarhverfi sje á móti því, og það er einmitt sá hluti hreppsins sem óeðlilegast er að sje á móti því.

Vitaskuld er það, að atkvæði hreppsnefndarinnar hafa fallið svo, að þar urðu þrír á móti þrem, svo að atkvæði oddvita skar þar, lögum samkvæmt, úr. En þess ber að gæta, að einn hreppsnefndarmaðurinn hefir ekki greitt atkvæði í málinu, og það sýnir, að hann hefir ekki treyst sjer til að vera á móti því — ekki treyst sjer til að ganga í lið með þeim, sem voru á móti málinu, en hitt er miklu meira um vert, að mikill meiri hluti atkvæðisbærra manna á fundi, er haldinn var um þetta mál, var með sameiningunni. Og það var fjölmennur fundur, en það er sjaldgæft, að fundir sjeu mjög fjölmennir, nema um sjerstök áhugamál manna sje að ræða.

Þriðja áttin, sem mótþróinn kemur frá, er sýslunefndin.

Jeg vil strax taka það fram, að álit sýslunefndarinnar getur ekki verið bindandi fyrir löggjafarvaldið. Það á að leita álits sýslunefnda þegar umboðsvaldið á í hlut, en álit sýslunefnda getur ekki bundið löggjafarvaldið, nema það væri þá ákveðið í stjórnarskránni. Það er ekki hægt að segja við löggjafarvaldið: Þú mátt ekki gera þetta nema sýslunefndin í N.-sýslu samþykki það, en það getur oft verið að þegar framkvæmdarvaldið telur sig verða að ganga frá máli, þá gerir löggjafarvaldið út um það.

Það er alt annað hvað löggjafarvaldið telur hyggilegt fyrir sig að gera, hverjar upplýsingar það óskar að fá, áður en það afgreiðir málið. Það má ekki skilja svo, sem úrslit slíks máls í sýslunefnd þurfi að sjálfsögðu að vera hindrun fyrir framgangi málsins hjer á þinginu.

En setjum nú svo, að hjer hefði átt að gilda hið sama og ef umboðsstjórnin hefði afgreitt málið, og því átt að leita álits sýslunefndarinnar; þá hefir það verið gert, þótt þess þyrfti vitanlega ekki, að því er kaupstaðinn snertir, sem gat leitað beint til þingsins. En framkoma sýslunefndarinnar virðist vera mjög undarleg. Þegar málið er borið undir hana, þá tekur hún þann kost að tefja málið og draga það á langinn, með því að fresta að láta uppi álit sitt. Af þessari framkomu virðist mjer það vera auðsætt, að hún treystist ekki til að vera á móti málinu. Því að ef svo hefði verið, þá hefði hún ekki þurft neitt að kynoka sjer við að láta það álit sitt í ljós. Mjer finst því, að þingið þurfi alls ekki að vera bundið við gerðir sýslunefndarinnar.

Þá er það mjög kynlegt, að sýslunefndin skuli vísa þessu máli til allra hreppa í sýslunni, til atkvæðagreiðslu og umsagnar þar. Það gæti fyrst og fremst orðið langur dráttur á því, að allir hreppar við Ísafjarðardjúp hefðu greitt atkvæði um málið, og það er harla undarlegt, ef Inndjúpshreppar eiga að fara að verða forsjónarmenn fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp.

Jeg verð að segja það, að þetta er allólíkt því, sem gerist annarsstaðar, þar sem jeg þekki til.

Jeg skal taka dæmi, sem mjer er sjerstaklega vel kunnugt.

Hafnarfjörður var tekinn frá Gullbringusýslu, feitasti biti hennar, án þess að sýslunefndin væri nokkru sinni að því spurð.

Það var álitið eindregið löggjafarmál, datt engum annað í hug.

Og í sama mund og Hafnarfjörður var gerður að sjerstöku bæjarfjelagi þá verður Keflavík, sem orðin var kauptún með meira en 300 manns, hreppsfjelag fyrir sig og er sameinað við hana Njarðvík og alla leið inn undir Vogastapa. Og vegalengdin er líklega álíka mikil og hjer hjá Ísfirðingum. Þetta mál var auðvitað fyrir sýslunefnd Gullbringusýslu, og sýslunefndin ljet í ljós, hvert tjón og söknuður henni væri að því að missa Keflavík og Njarðvík að miklu leyti, en alt um það ljet sýslunefndin það einróma í ljós, að þar sem sveitarfjelögin sæju hag sinn í þessu, þá dytti henni ekki í hug að standa í vegi fyrir þroska þeirra.

Jeg tek þetta fram til athugunar. Jeg vil ekki, að hv. deild eða hv. Alþingi geri svo mikið úr mótþróa sýslunefndar Norður-Ísafjarðarsýslu, að málið sje felt. Til sýslunefndar á hjer ekkert annað að koma en það, er snertir fjárskifti við hreppinn.

Það hefir verið minst á þá stefnu, að skifta sveitunum í sem minst sveitarfjelög. Það getur verið, að það eigi vel við, þegar um ólíka hagsmuni er að ræða innan sömu sveitarinnar. En hjer er alls ekki um það að ræða. Hagsmunir manna í þessum sveitarfjelögum eru að sjálfsögðu í mörgu svipaðir. Það er líka alveg satt, að oft hefir gefist vel að skifta stórum hreppum í sundur, en það er vitanlega ekki af þeirri ástæðu, að í raun og veru sje rjett að sundra kröftunum. En líka þekki jeg dæmi, þar sem jeg álít, að vel mundi gefast að sameina hreppa aftur, sem eitt sinn hafa verið aðgreindir. Aðalástæðuna hygg jeg vera, hversu sveitarstjórnirnar eru veikar. Við vitum, hvernig þeim er háttað. Menn fá ekkert fyrir þann starfa, en hafa talsvert mikið að gera. Þessu er alt annan veg farið með bæjarfjelögin. Þar er miklu meiri kostur á að hafa stjórnina sterka.

Jeg hefi kastað fram þessum hugsunum, því að mig undrar, hversu stirðlega hefir verið í þetta mál tekið hjer í þessari hv. deild. Mjer finst alt mæla með því, að þingið taki vel í þetta, og sjálfsagt virðist, að þessi hv. deild láti það ganga áfram til hv. neðri deildar. Það væri ef til vill ástæða til þess, að málinu væri frestað, er þangað væri komið, meðan enginn fulltrúi er fyrir N.-Ísf., enda þótt jeg sjái ekki, að hagsmunir sýslunnar sjeu svo ríkir í þessu máli, að þess vegna sje þörf á sjerstökum fulltrúa fyrir hana. Norður-Ísafjarðarsýslu munar áreiðanlega minna um að missa Eyrarhrepp en Gullbringusýslu munaði um að missa Keflavík og Njarðvík, að jeg tali nú ekki um Hafnarfjörð.

Ekki get jeg gert mikið úr vegagjaldinu, sem minst hefir verið á. Jeg skil ekki, að sýsluna geti munað svo mikið um það, að sæmilegt væri að fella málið fyrir þá sök. Yfirleitt mundi það skifta mjög litlu máli fyrir sýsluna, en það getur aftur á móti verið mikilsvert fyrir hreppinn og bæinn. Jeg leyfi mjer þess vegna að leggja það til, að málið fái að ganga í gegnum þessa hv. deild.