26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (2936)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. meiri hl. (Magnús Torfason):

Að eins fáein orð, til þess að svara hv. 4. landsk. þm. (G. G.).

Hv. þm. (G.G.) heldur því fram, að það sje skylda þingsins að bíða eftir svari sýslunefndarinnar. Jeg varð forviða á því, að nokkur þm. skyldi láta sjer slík orð um munn fara. Sýslunefndin var skyldug til þess að láta álit sitt strax í ljós, en þá skyldu sína afrækti hún. Hún sýndi þinginu lítilsvirðingu í því að draga að láta uppi álit sitt, þó að hún vissi, að málið mundi verða borið. fram á þingi. En sýslunefndin gerði það, sem hún átti ekki að gera. Hún vísaði málinu til hreppsnefndanna. Þetta er spónný aðferð og einkis nýt, nema ætlast hafi verið til, að hreppsnefndirnar biðu með að láta uppi álit sitt, svo að hægt væri að segja við þingið: Málinu verður ekki ráðið til lykta fyr en allar hreppsnefndirnar í Norður-Ísafjarðarsýslu hafa látið álit sitt í ljós, og yrði þess ef til vill lengi að bíða.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) kvaðst kunnugur á Ísafirði. Jeg veit, að hann á þar kunningja. En jeg veit líka, hverra fulltrúi hann er á Ísafirði. Mótspyrnan gegn frv. kemur úr einni átt. Hún kemur frá einni útlendri selstöðuverslun, sem lítur svo á, að hún hafi tjón af sameiningunni, og berst því á móti henni. Þó gat hún ekki fengið meira fylgi en þetta. Annarsstaðar frá kom mótspyrnan ekki.

Jeg vil leyfa mjer, að taka það fram, að jeg ætla mjer ekki að vansæma fjarverandi menn og allra síst látna, og þykist ekki hafa gert það. En úr því að hann (Sk. Th.) bar á góma, var það skylda mín, sem málsvara Ísafjarðar, að láta þess ekki ógetið, hvað við mig var sagt En auðskilið, að afstaða þm. gagnvart kjósendum sínum getur verið viðkvæm og svo mun hafa verið í þessu máli.