26.07.1917
Efri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (2937)

24. mál, sameining Ísafjarðar og Eyrarhrepps

Frsm. minni hl. (Hannes Hafstein):

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. Vil að eins taka fram eitt atriði, sem virðist hafa verið misskilið.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) talar um afstöðu sýslunefndarinnar í þessu máli eins og afstöðu hvers annars sveitarstjórnarvalds, og telur álit hennar óþarft í raun og veru. En þetta er misskilningur. Sýslunefndin er annar málsaðili, en ekki hreppsnefndin. Hreppurinn er að eins hluti af því, sem sýslunefndin á yfir að ráða, og á sýslunefndin að verja hagsmuni hans.

Þetta mál snertir eldgamalt sýslufjelag, og þó að það snerti Eyrarhrepp, er það aðalatriðið, að breyta á mörg hundruð ára gömlu fyrirkomulagi. Þá er eðlilegt, að hlutaðeigandi yfirvöld láti uppi álit sitt Þau hafa beðið um að mega hugsa betur um málið, og þingið ætlar að fara að synja þess. Það álít jeg óverjandi. Hjer er verið að taka frá einu barninu og gefa öðru.

Það er óþarfi að orðlengja þetta meir. Jeg held fast við það, að þingið geri rjettast að bíða með álit sitt, þangað til það fær að heyra, hvað hinn málsaðilinn hefir að segja.

Því hefir verið haldið fram, að sjálfsagt væri að meina ekki neðri deild að láta uppi álit sitt. Það álít jeg rangt, álít það sama sem að svifta efri deild rjetti sínum. Jeg hygg, að það að láta neðri deild segja álit sitt um málið, sje hið sama sem að efri deild samþykki það, sem hún, ef til vill, hygði rangt. Hver þingmaður á rjett á, og hefir skyldu til að láta uppi álit sitt. Hugsanlegt er, að frv. verði samþykt í neðri deild, og ef þingdeildarmenn eru því mótfallnir, er ekki rjett að hleypa því þangað.

Ef þessi deild er þeirrar skoðunar, að meina ekki sýslunefndinni að láta uppi álit sitt, vil jeg mælast til þess, að hún samþykki dagskrá þá, sem komin er fram, og láti málið eigi fara lengra.