20.07.1917
Efri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (2942)

73. mál, skipun læknishéraða o. fl.

Flm. (Halldór Steinsson):

Jeg sá það nýlega í blaði, að mál þetta hefði verið lengi á döfinni, og má það til sanns vegar færa, því að það hefir, að mig minnir, verið flutt á hverju þingi síðan 1911, nema 1915.

Síðan læknaskipunarlögin frá 1907 gengu í gildi hefir það verið aðaláhugamál Hnappdæla, að læknishjerað þetta yrði skipað, Það er mjög miklum erfiðleikum bundið fyrir hjeraðabúa að ná til læknis. Læknirinn í Borgarnesi situr á enda hjeraðs síns, og til Ólafsvíkur og Stykkishólms er yfir torsótta fjallvegi að fara, og oft ófært um vetur.

Það hefir venjulega gengið mjög erfitt að fá læknaskipunarlögunum breytt. Menn hafa talið það einhverja goðgá að hreyfa við þeim. En jeg fæ ekki sjeð, að þau eigi að vera neitt friðhelgari en önnur lög. Á lögum þessum eru talsverðir annmarkar og gallar, og sjálfsagt að leiðrjetta þá smátt og smátt, þegar reynslan leiðir þá í ljós.

Jeg tel það óþarft að reifa málið nánar við 1. umr., því að flestir hv. deildarmenn hafa áður fjallað um það. Vil jeg mælast til þess, að því verði vísað til 2. umr. Er í vafa um, til hvaða fastanefndar væri heppilegast að vísa málinu; mun þó venja að vísa slíkum málum til allsherjarnefndar, og geri jeg það því að tillögu minni.