25.07.1917
Efri deild: 14. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í C-deild Alþingistíðinda. (2948)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Flm. (Eggert Pálsson):

Þetta frv., er, eins og allir sjá, stutt, og jeg hafði ekki heldur búist við, að það þyrfti langa framsögu eða meðmæli. Mjer finst, að þetta frv. sje svo ljóst, að auðvelt sje að átta sig á því í fljótu bragði.

Frv. miðar til þess að tryggja hina fjárhagslegu hlið kirknanna í þessu landi; hjer eru þau lög, að öllum forráðamönnum kirkna, sem ekki eru bændaeign, er skylt að leggja fje það, sem kirkjurnar hafa afgangs, í hinn almenna kirkjusjóð. Samkvæmt ársreikningi sjóðsins árið 1915 var hann 148002 kr. og nokkrir aurar,

svo að jeg geri ráð fyrir að láti nærri að segja megi, að hann sje um 150,000 kr.

En fyrir þessum, eftir okkar mælikvarða mikla, sjóði stendur, mjer vitanlega, engin trygging. Sú trygging, er stendur á bak við þennan sjóð, er eingöngu ráðvendni, fyrirhyggja og forsjálni biskupsins. Það er auðvitað góð trygging í sjálfu sjer, því að biskuparnir hafa til þessa sýnt það, að þeir hafa borið mikla umhyggju fyrir sjóði þessum og mjög vel með hann farið, og jeg fyrir mitt leyti geri mjer fulla von um, að núverandi biskup muni sýni sömu árvekni og fyrirhyggju sem fyrirrennarar hans, að því er sjóð þennan snertir, svo að það, að jeg ber fram þetta frv., stafar ekki af ótta fyrir hinu gagnstæða. En hitt er annað mál, að aðrir, sem þekkja ekki persónulega, eða jafnvel og jeg, þessa góðu hæfileika biskups vors, geta ef til vill borið nokkurn ótta fyrir því, að þessu sje ekki sem tryggilegast fyrir komið. Og það því fremur geta einhverjir þóst hafa ástæðu til að óttast slælega stjórn á sjóði þessum, þar sem allir vita, að biskupinn hefir ekki haft og hefir ekki enn neitt fyrir störf sín og ómak fyrir honum. Kostnaðurinn, sem færður er á síðasta reikningi sjóðsins, var 40 kr., og af því er auðsjeð, að biskupinn hefir ekkert fyrir starf sitt í þarfir sjóðsins.

Líka er þess að gæta, að þótt menn gangi út frá því, að biskup geri alt til þess, að sjóðnum sje sem best borgið, þá getur þó ýmislegt fyrir komið, sem hann getur ekki gert við, sem valdi því, að kirkjur, sem lagt hafa fje í sjóðinn, bíði skaða.

Það getur við borið, að kirkja farist; hún getur fokið eða brunnið og söfnuðurinn algerlega leyst upp. Og er þá ljóst, að fje það, sem lánað er slíkri kirkju, hlýtur að tapast, og það tap verður þá að leggja á aðrar kirkjur landsins, eins og nú standa sakir. En óneitanlega er það hart aðgöngu að skipa kirkjum að leggja fje sitt í þennan sjóð, sem ekki veitir hærri vexti en sparisjóðir alment, og verða jafnframt að sæta því, að eitthvað af því kunni, af framangreindum orsökum, að tapast. Því að gefinn hlutur er það, að verja mætti fjenu þannig, að það gæfi meiri arð en nú, og væri jafnframt enn þá betur trygt.

Það virðist því ekki nema sjálfsagður hlutur, fyrst að kirkjum er gert það að skyldu að leggja fje sitt í sjóð þennan, þá sje svo vel um hann búið, að full trygging sje fyrir því, að fjeð tapist ekki að neinu leyti. Mjer virðist það því ofureðlileg krafa, að landssjóður taki að sjer ábyrgðina á fje þessu, og það því fremur þegar þess er gætt, að hjer hjá oss er enn þjóðkirkja, sem landssjóður hefir tekið að sjer að halda uppi.

Mál þetta er svo einfalt, að jeg efast um, að vísa þurfi því til nefndar. En eftir efni þess mundi það eiga best heima í allsherjarnefnd, ef til kæmi. En að svo komnu máli geri jeg það ekki að tillögu minni, að því verði vísað til nefndar; tel það með öllu óþarft, jafnljóst sem það sýnist liggja fyrir.

Vona jeg svo, að málið fái að ganga sem greiðast sína leið, Bæði gegnum þessa umræðu og aðrar, sem það á eftir.