18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Þórarinn Jónsson:

Það er sjerstaklega einn liður í áliti nefndarinnar, sem jeg vildi leyfa mjer að gera ofurlitla athugasemd við. Nefndin leggur til, að eftirrit úr embættisbókum og skjalasöfnum sje borgað með 1 krónu fyrir hverja örk. Háttv. frsm. (M. G.) gat þess, að það gæti meira að segja álitist nokkuð lítil borgun. Jeg skal ekki hafa á móti því, að svo megi teljast. En ef hin háttv. nefnd álítur, að ekki sje hægt að skrifa eina örk fyrir minna en krónu, er þá nokkur sanngirni í því, að fyrir úttekt, skoðun eða matsgerð á fasteign sje goldið að eins 4 kr.? Gera má ráð fyrir, að dagurinn fari í það, í hvert sinn er eitthvert slíkt verk þarf að gera. Það ætti þó að vera hægðarleikur að skrifa 6 arkir á dag, með hæfilegum vinnutíma, og væru þá daglaunin við það að minsta kosti 6 krónur. Það sje fjarri mjer að telja það ofháan taxta. En er þá nokkurt samræmi í launaákvörðunum þeim, sem stungið er upp á í 4. og 5. tölul. nefndarálitsins? Vilji nefndin vera sjálfri sjer samkvæm, hlýtur hún að geta fallist á það, að greiðsla sú, sem farið er fram á í greindum töluliðum, sje fjarska lítil, töluvert lægri en borgun sú, sem 7. töluliður fer fram á.

Jeg ætla mjer ekki að gera ágreiningsatkvæði. Vildi að eins skjóta því til háttv. nefndar, hvort hún vildi ekki athuga málið betur fyrir 3. umr., og hækka laun fyrir úttekt, skoðun og matsgerðir, svo og landskifti, svo að greiðsla fyrir þessi störf yrði í samræmi við greiðslu fyrir eftirrit úr embættisbókum og skjalasöfnum.