09.08.1917
Efri deild: 26. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Frsm. (Eggert Pálsson):

Það er ástæðulaust fyrir mig að tala langt að þessu sinni. Jeg býst við, að það yrði þá líka lítið annað, sem jeg hefði að segja, en endurtekning á því, sem jeg sagði við 1. umr. málsins, og því, sem í nál. stendur. Nefndin hefir ekki gert neina brtt. við frv., en ástæðan til þess, að málinu var vísað til nefndar, var sú, að hæstv. forsætisráðherra gerði nokkrar athugasemdir við frv. og óskaði, að því yrði vísað til nefndar. Hins vegar hygg jeg þó, samkvæmt samtali, sem jeg hefi átt við hann, að hann leggi ekki sjerlega mikla áherslu á athugasemdir þær, er hann hafði fram að færa, heldur hafi hann óskað þess eins, að málið væri íhugað í nefnd. Það hefir nú nefndin gert, og ekkert sjeð við það athugavert. Og vænti jeg því þess, að deildin ljái frv. fylgi sitt og lofi því að ganga áfram sína leið.