20.07.1917
Neðri deild: 15. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

7. mál, laun hreppstjóra og aukatekjur

Framsm. (Magnús Guðmundsson):

Það er örlítil brtt. hjer á þgskj. 120, frá allsherjarnefndinni, sem jeg ætla að minnast á. Hún gengur út á, að aftan við 14. gr. verði bætt því, að ákvæði hennar nái ekki til þeirra afrita, er ræðir um í 2. málsgrein 6. gr. reglugerðar 13. jan. 1916, um Þjóðskjalasafnið í Reykjavík. Um þessi eftirrit verða að gilda sjerstakar reglur, svo að brtt. er sjálfsögð.

Þá er brtt. á þgskj. 126, frá háttv. þingm. Barð. (H. K.), um laun hreppstjóranna. Nefndin hefir ekki átt kost á að bera sig saman um hana, en jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð, að hún sje til bóta. Annars ætla jeg ekki að fara fleirum orðum um hana fyr en jeg heyri rök háttv. flutningsmanns hennar (H. K.).