01.09.1917
Neðri deild: 49. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (2973)

86. mál, innheimta og meðferð á kirknafé

Gísli Sveinsson:

Það er komið í ljós, að hv. frsm. (Sv. Ó.) fer með rangt mál, er hann segir, að nefndin hafi fengið þær upplýsingar hjá landsstjórninni og hjá biskupi, að landssjóður hefði nú ábyrgð á fje sjóðsins. Þetta er ekki svo, eins og kemur berlega fram hjá hæstv. forsætisráðh., en hann kveðst hafa viljað leggja til, að landssjóður verði ekki látinn tryggja sjóðinn að fullu. Það er því upplýst, að nefndin hefir hlaupið í gönur, og það kemur í ljós, að ef svo hefði ekki verið, þá hefðu niðurstöður nefndarinnar orðið alt aðrar. Jeg býst við, að ef nefndin hefði komist að þeirri niðurstöðu, að þessi trygging væri ekki fyrir hendi, þá hefði hún líklega lagt til, að frv. yrði samþ.

Hvað viðvíkur því, sem hæstv. forsætisráðh. talaði um, að landssjóður tæki ekki á sig alla ábyrgðina, þá er það rjett, að ef um mikla áhættu væri að ræða, þá bæri að athuga það, hvort landssjóður eigi að bera ábyrgðina alla. En nú er áhættan lítil fyrir landssjóð, en getur verið talsverð fyrir einstakar kirkjur eða söfnuði, og aðallega verður að líta á hitt, að þegar löggjafarvaldið skipar einstaklingum að leggja fje sitt á ákveðinn stað, þá verður það að ábyrgjast, að sá staður sje tryggilegur. Nú er ekki hægt að segja, að kirkjusjóðurinn sje öruggur eins og hann er. — Þetta er ekki neitt einstaklingsmál, heldur snertir það alla þá, sem kirkjur eiga um land alt, sjerstaklega þó, ef litið er til þeirrar reglu, sem sagt er að núverandi biskup ætli sjer að taka upp, að heimta persónulega ábyrgð fyrir lánum úr sjóðnum. Jeg vona, að háttv. þingmenn stingi hendinni í sinn eiginn barm og líti á það, hvernig því mundi verða tekið heima í þeirra eigin hjeruðum, ef þeirri ábyrgð er varpað yfir á einstaka menn, sem að rjettu lagi á að hvíla á landssjóði, þótt ekki sje um mikla áhættu að ræða. Jeg vona því, að háttv. deild — líka háttv. nefndarmenn sjálfir, eftir þær upplýsingar, sem fram eru komnar, — greiði atkvæði með frv. Þótt það sje lítilsverð krafa, sem um er að ræða, þá er hún þó sanngjörn.