17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

124. mál, löggæsla

Hannes Hafstein:

Þó að frv. þetta sje eigi langt, þá hefir það þó ekki svo lítið nýmæli að flytja. Með því er sem sje þeim útgjöldum kastað yfir á landssjóð, sem alstaðar um víða veröld eru greidd úr bæjarsjóðum. Landssjóður á ekki einungis að greiða þau gjöld, sem annarsstaðar hvíla á ríkissjóðum, heldur á hann

einnig að kosta löggæslu hjer, nái frv. þetta fram að ganga. Þetta álít jeg hættulega braut. Orðalag frv. er þar að auki svo vítt, að engin takmörk eru fyrir því, hve langt mætti ganga í að kasta löggæslunni yfir á landssjóð. Því að þó að einhver takmörk sjeu í greinargerð frv., sem eiga sjer engan stað í texta þess, þá hefir það litla þýðingu. Þar að auki fæ jeg ekki betur sjeð en að orðalag frv. og greinargerðarinnar sje í beinni mótsögn hvort við annað. Í 1. gr. frv. segir svo: „í kaupstöðum og kauptúnum, þar sem siglingar eru mestar, skulu skipaðir löggæslumenn, eftir því sem þörf krefur, lögreglustjórum til aðstoðar“. En í greinargerðinni er gert ráð fyrir, að 3—4 menn verði valdir til starfsins. Hvernig er nú hægt að skifta 3—4 mönnum niður í alla kaupstaði og kauptún landsins, „þangað sem siglingar eru mestar?“ Það getur varla verið alvara hv. frsm. (M. T.). Ef til vill gætu 3—4 menn dugað á Ísafirði. En hve marga þyrfti þá ekki annarsstaðar? Landssjóður hefir ekki efni á að borga 3—4 mönnum í hverju kauptúni og kaupstað víðs vegar um landið. Og ef það er tilgangurinn með frv. þessu að gæta bannlaganna, sem jeg hygg að sje, þótt hv. frsm. (M. T.) hafi eigi getið þess, þá þyrfti fleiri en 3—4 menn í sumum kaupstöðunum. Þyrfti ef til vill tífalt fleiri, ef eftirlitið ætti að vera meira en nafnið eitt, og ætti landið að kosta svo miklu til eftirlits bannlaganna, er hætt við, að lítið yrði eftir í landssjóðnum.

Það er ekki ætlun mín að fara í kappræður um málið, og býst jeg ekki við, að jeg muni taka aftur til máls, þó að athugasemdir kunni að verða gerðar við orð mín. En jeg verð að lýsa yfir því, að jeg álít það ekki ná nokkurri átt, að hv. deild samþykki óhugsað gjöld, sem altaf yrðu meiri og meiri með ári hverju, og fari að kasta fje út í bláinn, upp á jafn-óákveðið, örstutt og vanhugsað frv., sem þetta er. Með frv. er öllu slengt upp á ókomna tímann, og ekkert tekið fram ákveðið, hvað gera skuli, nema það, að heimilað er ótakmarkað eftirlit, og kemur það í bága við greinargerð frv.

Jeg skal ekki segja um það, hvernig frv. reiðir af. En skemtilegt þætti mjer að sjá, hvort hv. frsm. (M. T.) verður að von sinni, að hv. deild samþ. frv. Því trúi jeg ekki fyr en jeg tek á.