17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

124. mál, löggæsla

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg hlýt að þakka hv. 1. landsk. þm. (H. H.) fyrir þann sóma, sem hann hefir sýnt þessu litla frv., með því að ráðast á það með svo miklu afli, að hann virtist taka á öllu, er hann átti til. Í því sambandi hjelt hann kosningaræðu, og sagði, að hjer væri verið að taka stórfje úr landssjóði.

Jeg hafði ekki búist við slíkri ræðu frá hv. 1. landsk. þm. (H.H.). Hann hefir haft hina megnustu óbeit á slíkum ræðum, og er jeg honum fyllilega samdóma í því efni.

Jeg hygg, að kostnaðurinn sje grýla ein. Í öðrum löndum er einnig til ríkislögregla, og það í „Móðurlandinu“ okkar. Þegar jeg var erlendis, var kostað ekki ósmáu fje úr ríkissjóði til ríkislögreglu í Kaupmannahöfn, fyrir utan lögreglu ríkisins víðs vegar um landið, er var óstaðbundin. Sá er einnig munurinn á, að útlendar þjóðir hafa herlið, og gerir það að verkum, að löggæslan gengur betur en ella. Væri því ólíku saman að jafna, þótt rjett væri, að ríkislöggæsla tíðkaðist hvergi erlendis.

Lögregluþjónar eru hjer að eins í bæjum, og hafa kaupstaðirnir sannarlega nóg við fje sitt að gera; er því engin von, að þeir vilji kosta meiru til en þarf til þess að halda uppi sæmilegum heimilisfriði, ef jeg mætti svo að orði komast, eða bæjarfriði. Þessi nýja lögregla ætti að gæta almennra landslaga. Er því sanngjarnt, að landið kosti hana, þar sem landssjóður hefir hag af því, að lögunum sje hlýtt, og sektirnar fyrir lögbrotin renna í landssjóð, en ekki bæjarsjóð.

Jeg skal ekki um það deila við hv. 1. landsk. þm. (H. H.), hvort frv. þetta sje vel hugsað eða vanhugsað. En jeg vil benda á það, að ekki er hjer að ræða um að stofna nein ný embætti. Í fjárlögunum verður aftur á móti farið fram á að stofna embætti til eftirlits með bannlögunum. Var það ætlun mín, að þessi löggæsla kæmi í stað bannlagaeftirlitsins, eins og jeg hefi þegar tekið skýrt fram. Hefi jeg því ekki sent frv. þetta til fjárveitinganefndar, sem jeg að sjálfsögðu ella hefði gert. Í fjárlögunum yrði þá ákveðið í hvert sinn, hve mikið fje mælti veita til framkvæmdar þessum lögum.

Hv. 1. landsk. þm. (H. H.) mintist á, að gert væri ráð fyrir 3—4 löggæslumönnum. En það er misskilningur. Í frv. er ekkert ákveðið um tölu mannanna, enda yrði það að sjálfsögðu ákveðið í fjárl. En í greinargerð frv. segir: „... fje til læringar 3—4 mönnum, er valdir yrðu til starfsins...“, og er þar talað um að senda 3—4 menn út, til þess að læra að vera lögregluþjónar. Hjer er engin lögregla til, í orðsins eiginlegu merkingu, enda þess engin von, þar sem enginn hefir lært. Menn geta ekki heldur orðið læknar eða bæjarfógetar án þess að búa sig undir það.

Hv. 1. landsk. þm. (H. H.) drap á bannlögin í sambandi við frv. Jeg er ekkert feiminn við að nefna þau. En þar sprakk blaðran hjá hv. þm. Hann má ekki vita til þess, að neitt sje gert til varnar bannlögunum, og legst hann því á móti frv. þessu. En hvers vegna má ekki nefna tollsvik? (H. H.: Þau leiða af bannlögunum). Nei, þau voru til áður. Það er ekki lítil upphæð, sem landið missir við tollsvik, eins og von er í lögreglulausu landi.

Jeg segi þetta ekki þjóðinni til lasts; vjer erum sjálfsagt eins löghlýðnir og aðrar þjóðir.

Í tilefni af kostnaðargrýlunni vil jeg geta þess, að til eru lög hjer í landi, sem ákveða, að ekkert aðkomuskip megi leggjast á aðrar hafnir en þær, sem löggiltar eru. (H. H.: Þær eru margar). Já, en það styttir þó strandlengjuna að mun, enda væri hægt að þrengja það ákvæði meir.

Jeg þykist nú hafa hrakið ástæður hv. 1. landsk. þm. (H. H.) gegn frv. Og án þess, að jeg hafi neitt „agiteraðu fyrir máli mínu, trúi jeg eigi fyr en jeg tek á, að hv. deild felli frv., hvað sem hv. 1. landsk. þm. (H. H.) segir.