17.08.1917
Efri deild: 33. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

124. mál, löggæsla

Magnús Kristjánsson:

Jeg vildi gera þá fyrirspurn til háttv. frsm. (M. T.), hvort tilætlun hans er, að þær 10,000 kr., sem stjórnin fer fram á í 11. gr. fjárlagafrv, að veittar verði til eftirlits með bannlögunum, stæðu sjerstaklega, og auk þess verði veitt fje til að standast þann kostnað, er frv. fer fram á.

Vænti jeg skýrs svars frá hv. frsm. (M.T.).

Þá vil jeg geta þess, að jeg álít, að þessi stefna geti ekki skoðast annað en fálm út í loftið. Ætti nokkurt gagn að vera að slíku, þyrfti svipað fyrirkomulag sem nú er verið að undirbúa hjer í Reykjavík, að aðskilja þá eiginlegu lögreglu, er bærinn kostar, frá tollstjórn og tollgæslu, sem landssjóður að sjálfsögðu á að kosta. Hefði háttv. flm. (M. T.) komið fram með frv. um slíkt fyrirkomulag, þá hefði verið vit í því, En þetta er kák, sem getur leitt út í ógöngur, sem enginn getur sjeð fyrir. Þótt háttv. frsm. (M. T.) segi, að fáir muni hafa djörfung til að greiða atkvæði gegn frv., þá greiði jeg þó óhikað atkv. gegn því, af þessari ástæðu. Menn verða að gera sjer ljósa grein fyrir, hvað verið er að gera, og mega ekki aðhyllast mál, er leikur í jafnlausu lofti og enginn grundvöllur er undir.

Háttv. frsm. (M. T.) drap á tollsvik og sívaxandi siðspillingu í landinu. Tók hann þessi ummæli sín þó að nokkru leyti aftur í síðari ræðu sinni, og kvað oss ekki ólöghlýðnari en aðrar þjóðir, Þarf jeg því ekki að deila við háttv. frsm. (M. T.) um þetta, en hins vegar finst mjer illa til fallið og óheppilegt af fulltrúum þjóðarinnar að slá föstu í sterkum orðum, hve mögnuð siðspillingin sje í landinu. Hygg jeg ástæðulaust að leggja slíkan dóm á þjóðina, enda bætti hv. frsm. (M. T.) úr skák í síðari ræðu sinni, eins og jeg gat um. Jeg vil að eins taka það fram, að þar, sem jeg þekki til, hefi jeg ekki orðið var við neina sívaxandi siðspillingu. Ef siðspillingin keyrir svo úr hófi í umdæmi háttv. frsm. (M. T.) er honum vorkunn, en því vil jeg þó ekki gera ráð fyrir.

Læt jeg svo þetta atriði útrætt, en vil að eins mælast til þess, að háttv. frsm. (M. T.) svari fyrirspurn minni.