23.08.1917
Efri deild: 37. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2995)

124. mál, löggæsla

Halldór Steinsson:

Það hafa verið gerðar talsverðar bætur á frv., og var þess sannarlega ekki vanþörf. Því að, eins og frv. kom fram, var það svo úr garði gert, að engum gat dottið í hug, að góður og glöggur lögfræðingur hefði unnið að smíðum þess.

Eins og frv. var orðað upphaflega hefði stjórnin getað þurausið landssjóð til þess að framfylgja því, án þess, að hægt hefði verið að koma fram ábyrgð á hendur henni. Orðin í 1. gr. frv. „.... eftir því sem þörf krefur“, gáfu stjórninni alveg óbundnar hendur. Við 1. umr. lýsti hv. flm. (M.T.) yfir því, að í frv. væri að eins átt við þá fjárupphæð, 10000 kr., sem stjórnin fór fram á í fjárlagafrv. sínu að veittar yrðu til gæslu og eftirlits bannlaganna. En þá er mjer spurn, hvers vegna þurfti þá frv. þetta að koma fram? Var það til þess að fá þetta eftirlit lögfest, eða þótti öruggara að bera þetta upp í frumvarpsformi heldur en að eiga undir því, að þingið samþykti þennan lið í fjárlögunum? En ef svo hefði verið, þá hefði átt að taka fram í frv. tilganginn, og hve miklu fje skyldi verja í því skyni, í stað þess að láta frv. koma fram grímuklætt. Nú hefir hv. flm. (M. T.) lýst yfir því, að frv. væri aðallega ætlað til gæslu bannlaganna, og þakka jeg fyrir þá yfirlýsingu, því að nú vita menn, hvað um er að ræða.

Jeg skoða frv. í sinni upphaflegu mynd vera sjálfdautt. Mun jeg því að eins athuga brtt. meiri hluta nefndarinnar.

1. brtt. er sjálfsögð, ef nokkurt vit á að vera í frv., sem sje að fella í burt orðin: „eftir því sem þörf krefur“. Þá er 2. brtt., sem er eiginlega mergurinn málsins. Hún fer í þá átt, að skipa skuli löggæslumenn í kaupstöðunum utan Reykjavíkur og í Vestmannaeyjum. Laun þeirra skuli vera 1500 kr. árlega, auk dagpeninga og ferðakostnaðar eftir reikningi. Raunar er ekki gert ráð fyrir eftirlaunum. Það á, með öðrum orðum, að stofna 5 ný embætti með 1500 króna árslaunum, auk ferðakostnaðar og dagpeninga.

Fyrst er nú við þetta að athuga, að þótt þörfin sje mikil á löggæslu á þessum stöðum, og jafnvel meiri en annarsstaðar, þá er þess að gæta, að kaupstaðirnir eru þegar betur settir með löggæslu en önnur kauptún. Þar er lögreglustjóri og einn eða fleiri lögregluþjónar. Það er t. d. ólíku saman að jafna, hve Seyðisfjörður er betur settur en Norðfjörður með löggæslu, eða Ísafjörður heldur en aðrir stærstu verslunarstaðirnir. Því hefði átt að byrja þar, sem löggæslunnar er mest þörf. Jeg skil það vel, að það gæti verið þægilegt fyrir lögreglustjórana að fá skipaða undirmenn til vika. En sje það satt, sem jeg hefi heyrt fleygt, og hefi nokkra ástæðu til að trúa, að lögregluþjónar hafi störf sín sumstaðar í hjáverkum, þá álít jeg, að þessu fje sje á glæ kastað.

Það lítur ofurmeinleysislega út, að löggæslumenn skuli, auk fastra árslauna, hafa dagpeninga og fá goldinn ferðakostnað eftir reikningi, en jeg hygg, að hv. flm. (M. T.) hafi eigi gert sjer ljóst, hversu athugavert og ísjárvert þetta ákvæði er. Tökum t. d., að lögreglustjóri á Ísafirði hafi njósn af, að nokkrum pokum með áfengi hafi verið sökt á Dýrafirði eða við Hornstrandir. Hann þarf að manna vjelbát til þess að leita áfengisins. Slík ferð getur orðið fulldýr, og þegar við bætist ferðakostnaður löggæslumanns og dagpeningar, er hætt við, að þessi útgjöld yrðu hærri á ári en laun þeirra allra til samans. Þó að það sje fjarri mjer að sporna á móti því, að landslaga sje gætt, þá álít jeg hyggilegra að fara gætilega

og byggja á reynslu á minni sviðum heldur en að fálma út í loftið og fleygja fje út í bláinn. Nú er á leiðinni frv. um sjerstaka tollgæslu í Reykjavík, og allar líkur til, að það verði samþykt. Ef það sýndi sig, að aukin tollgæsla og bannlagavernd bæri nokkurn árangur í Reykjavík, þá væri nægur tími að færa sig upp á skaftið á næsta þingi og auka þá löggæsluna víðar. En þá þarf að stinga þar á kýlinu, sem útferðar er að vænta, eða setja löggæslumenn þar, sem brýnust er þörf, en það gerir ekki þetta frv., og því get jeg ekki verið því fylgjandi.