27.08.1917
Neðri deild: 44. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

124. mál, löggæsla

Magnús Pjetursson:

Mjer finst þetta mál vera þannig vaxið, að skylt sje að minnast á það með fáeinum orðum þegar við þessa umr., og úr því að allir aðrir þegja, þá get jeg ekki stilt mig um að segja fáein orð.

Menn tala um það, að þessi deild sje nokkuð ör á fje. En hjer kemur nú frá hv. Ed. frv., sem síst af öllu miðar í sparnaðaráttina. Það er fundið að því í háttv. Ed. og víðar, ef menn hjer í deildinni fara fram á að stofna nýtt embætti, eða hækka dálítið laun lágt launaðra starfsmanna landsins, en nú gerist það undarlega fyrirbrigði, að hv. Ed. fer fram á að stofna, ekki eitt embætti, heldur heila stjett embættismanna, sem ekki hefir þekst hjer áður.

Jeg er því ekki vel kunnugur, hvort hjer er brýn þörf á aukinni tollgæslu, en undarlegt þykir mjer það, að hennar sje sjerstaklega þörf nú, þegar siglingar til landsins eru mjög litlar, og aðallega á eina höfn.

Hv. meiri hluti allsherjarnefndar í Ed. heldur því fram, að lögreglustjórum sje orðið það um megn að annast tollgæsluna, ef þeir fái ekki aðstoð, og mjer hefir skilist, að hún telji það beinlínis gróðaveg að stofna þessa embættismannastjett, af því að þá muni tollsvikin minka svo mikið.

Jeg hefi nú ekki heyrt það fyr, að tollsvik sjeu svo tíð, að þessi ástæða sje frambærileg.

Hv. Ed. leggur ekki til, að þessir tollgæslumenn skuli vera nema á 4 stöðum á landinu. En það er auðsætt, að verði þetta samþykt, þá hljóta þessir tollgæslumenn að koma á hverri höfn innan skams.

Að öllu þessu athuguðu trúi jeg því ekki, að hv. Nd. hleypi frv. lengra að svo stöddu. enda verður það ekki borið fram með neinum rökum, að þessu máli liggi svo á, að það að minsta kosti geti ekki beðið eftir eðlilegum tímum.