04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

124. mál, löggæsla

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla ekki beint að mótmæla því, sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði um þetta mál. Það má vel vera, að mikið sje til í því, að ekki sje brýn þörf á að bera frv. þetta fram nú. En mjer þótti vænt um að heyra, að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vildi ekki taka af um það, að rjett væri, að eitthvað væri gert í þessa átt. Hann hefir má ske átt við, að rjett væri, að landsstjórnin hefði eitthvert fje til umráða til að leggja fram til löggæslu í kaupstöðunum, t. d. til að borga yfirlögregluþjóni, eins og komið hefir til orða að skipa hjer í Reykjavík.

Það er ekki svo óeðlilegt, þótt skipaður væri löggæslumaður til aðstoðar sýslumanninum í Vestmannaeyjum, fremur öðrum sýslumönnum. Það mun óvíða annarsstaðar jafnmikil þörf á aðstoðarlöggæslumanni. Þar safnast slíkur fjöldi skipa saman á sumum tímum árs, sjálfsagt fleiri en á nokkrum öðrum jafnstórum bletti hjer við land utan Reykjavíkur. Það kemur fyrir, að þar liggja skip svo að hundruðum skiftir. Jeg tek þetta fram til að benda á, að það er ekki óeðlilegt, að Vestmannaeyjar eru nefndar í frv.; þó vil jeg ekki halda því fram, að það beri að samþykkja frv. að þessu sinni. En jeg legg áherslu á það, sem háttv. frsm. (M. G.) sagði, að í frv. feldust atriði, sem vert væri að taka til íhugunar.