14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í C-deild Alþingistíðinda. (3049)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi nú setið hjer um stund og hlýtt með mikilli ánægju á ræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.), og get lýst yfir því, að jeg er sammála honum um margt. Jeg er t. d. sammála honum um það, að hjer stígur ekki verkfræðingur svo á land, að ekki sjeu honum boðin hærri laun en nokkrum háskólakennara hjer á landi, og verður þó þeirra verk að teljast vandasamara. En hvernig stendur nú á þessu? Það liggur í því, að landið getur ekki fengið verkfræðingana fyrir minni laun. Þeir segja bara við stjórnina: „Fyrir þetta skal jeg vinna og minna ekki“. Gangi stjórnin ekki að því, þá fara þeir til annara landa, því að þeirra verki er svo háttað, að þeir geta fengið atvinnu í hvaða landi sem er. En hinir, sem eru bundnir af kringumstæðunum og eðli atvinnu sinnar, geta ekki sett landinu stólinn fyrir dyrnar, og það notar landið sjer til þess að skamta þeim úr hnefa.

En nú er eftir að vita, hvort þetta er heppilegt fyrir landið. Getur það búist við að fá til lengdar úrvalið af mönnum, þegar það fer svona með sína verkamenn? Ætli það verði lengi, sem framúrskarandi menn sækjast eftir því að vera í landsins þjónustu? Jeg hygg ekki.

Jeg ætla ekki að skifta mjer neitt af launum embættismanna nú. Jeg hefi tvisvar áður reynt að koma því fram, að þeim væru greidd laun þeirra samkvæmt því, sem rjettlátast er, nefnilega í landaurum, en ekki fengið því framgengt. Jeg vildi benda á þetta af því, að laun embættismanna eru nú bæði ranglátlega skift og óveruleg.

Hins vegar er jeg ekki sammála hv. 1. þm. Árn. (S. S.) um laun yfirdómaranna, að óviðkunnanlegt sje að taka þá eina út úr. — Það er nú fyrst og fremst venja allra þjóða að láta ekki æðstu dómendur sína vera inn í hinu daglega argi, og því er það álit allra, sem vit hafa á, að þeir þurfi að vera svo vel launaðir, að þeir þurfi ekki að hafa önnur störf með höndum. Þess vegna má vel taka þá út úr. Það er sannarlega ekki lítilsvirði að hafa góða dómarastjett í landinu, því að hvernig er það land farið, sem vantar þá, þar sem auk þess, að oft er um stórkostleg peningamál að ræða, þá hafa þeir líka í höndum sjer æru manna og líf? En hví þá ekki að launa þessum mönnum svo, að menn geti trúað þeim fyrir æru sinni? Landið munar ekki um þessa peninga, en það munar um að missa góða menn úr þessari stöðu. Það stendur alveg eins á fyrir landinu eins og bóndanum. Það borgar sig fyrir hann að launa hjúum sínum vel, því að þá veljast til hans góð hjú. En launi hann hjúum sínum illa, þá veljast til hans ill hjú.