14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Pjetur Jónsson:

Það er satt, að ilt er að eiga við launabætur einstakra manna á meðan launamálið er ekki tekið fyrir í heild sinni. Hins vegar skil jeg ekki, að menn skuli sí og æ vera að stagast á því, að launabætur embættismanna muni komast í framkvæmd bráðlega. Mjer finst það vera eitthvað líkt og stendur í þessari gömlu vísu:

Margur fengi mettan kvið,

má því nærri geta,

yrði fólkið vanið við

vind og snjó að jeta.

Mjer finst það vera líkt og að bjóða embættismönnunum vind og snjó, að gera síst ráð fyrir launabótum handa þeim. En það var nú ekki sökum þessa, sem jeg tók hjer til máls, heldur til þess að leiðrjetta misskilning.

Mjer skildist nefnilega svo á hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að hann hjeldi, að mál þetta væri komið fram sökum kvartana frá yfirdómnum. Þetta er ekki rjett. — Þetta frv. er komið fram fyrir þá sök, að hv. Ed. sá, að það var óviðkvæmilegt að stofna nú á þessu þingi 3 embætti fyrir lögfræðinga, sem öll voru miklu betur launuð en yfirdómaraembættin. Það var þetta, sem jeg vildi leiðrjetta. Annars sýnist mjer, að það hefði verið hyggilegra af hv. Ed. að setja ekki launin svona há, heldur leggja laun launamálanefndarinnar til grundvallar.

Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. Skagf. (M. G.) hafi búist við, að ekki væri hægt að koma hærri launum fram en hann hefir stungið upp á í tillögum sínum, en jeg verð þó að vera á móti tillögum hans, því að mjer virðist í þeim vera hallað freklega á háyfirdómarann, þar sem laun hans eru ekki ákveðin hærri en laun hinna dómaranna. Jeg get ekki verið því meðmæltur að gera núverandi háyfirdómara þann vansa, síst þar sem hann er bróðir minn. Enda er það föst venja, að laun háyfirdómarans skuli vera hærri en hinna.