14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í C-deild Alþingistíðinda. (3051)

178. mál, laun íslenskra embættismanna

Benedikt Sveinsson:

Það munu flestir kannast við það, að sanngjarnt sje að breyta launakjörum yfirdómenda og bæta þau, því að þótt staðan sje hæg og virðuleg, og því allmjög eftirsótt, þá samir ekki að hafa hana illa launaða. En nú er það kunnugt, að stjórn sú, er með völdin fer í landinu, hjet því í öndverðu að kosta kapps um, að Ísland næði sem fyrst yfirráðum yfir öllum sínum málum, og um hæstvirtan forsætisráðherra er það kunnugt, að hann hefir lengi haft mikinn hug á að fá æðsta dómsvald í íslenskum málum flutt inn í landið. Vjer treystum því, að honum verði vel ágengt í þessu áhugamáli, og samfara þessu þarf þá einnig að breyta dómaskipuninni innan lands, fjölga dómendum í yfirrjetti og breyta launakjörum þeirra, Þar sem þessar breytingar allar standa fyrir dyrum, sýnist rjettara að láta launamálið bíða og verða hinum breytingunum samferða, og því vil jeg leyfa mjer að bera fram svo felda rökstudda dagskrá:

Þar sem ætla má, að æðsta dómsvald í íslenskum málum verði bráðlega flutt inn í landið, og jafnframt verður þá að breyta landsyfirdómnum og launakjörum dómenda þar, svo að ætla má, að tjaldað yrði til einnar nætur með launabreytingum þeim, er nú liggja fyrir, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.