10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (3060)

189. mál, frestun á skólahaldi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil leyfa mjer að láta það álit mitt í ljós, að jeg tel því að eins leyfilegt að leggja niður alla skóla, eins og frv. þetta fer fram á, að fyrirsjáanleg neyð standi fyrir dyrum. En auðvitað er það sjálfsögð skylda að haga skólahaldi svo, að það verði svo ódýrt, sem frekast er unt.

Enn þá sem komið er get jeg ekki sjeð, að ástandið sje svo, að rjettmætt geti talist að loka öllum skólum fyrri part vetrar. Og vegna sparnaðar hygg jeg, að það geti naumast talist rjett gert, þegar borga verður öllum kennurum full laun, auk annars kostnaðar, sem af skólanum leiðir, eftir sem áður.

Jeg viðurkenni að vísu, að dálítill sparnaður mundi að því vera að loka öllum landsskólum og öðrum fleiri, en stór sparnaður yrði það engan veginn.

Nú munu margir skólar hafa undirbúið sig svo með eldsneyti, að engin vandræði eru fyrir þá að halda áfram.

Jeg hefi heyrt því borið við, að óvíst sje, að eldiviður fáist nógur. En eftir því,

sem jeg frekast veit, er útlitið með það ekki svo mjög ískyggilegt.

Birgðirnar eru að vísu litlar sem stendur, en miklar líkur eru til, að úr því rætist, og víða hefir verið aflað eldiviðar innanlands.

Jeg veit ekki heldur til þess, að neinstaðar annarsstaðar hafi verið gripið til þeirra örþrifaráða að loka öllum skólum. Það hefir verið gert um tíma, en hvergi til fulls, svo að frjest hafi.

Jeg verð því að vera mótfallinn þessu frumvarpi.

Tel jeg rjettara, að láta skólana byrja nú, en hætta þá aftur ef nauðsyn krefur.

Jeg get ekki sjeð neina verulega ástæðu til þessara ráðstafana, sem í frumv. felast, aðra en þá, að menn óttist, að fólkið safnist um of til kaupstaðanna, og þá helst hingað til Rvíkur.

Með því geta menn þó ekki átt við búnaðarskóla eða unglingaskóla, sem starfa til sveita.

Minst hefir verið á Háskólann í því sambandi, en ekki trúi jeg á, að hjer verði miklu mannfærra þótt hann starfi ekki. Um Mentaskólann er það að segja, að lítill sparnaður mun af þeirri ráðstöfun leiða, ef 2 bekkjum lærdómsdeildarinnar verður haldið áfram, því að það eru þeir bekkirnir, sem flestir eru í, sem úr sveit koma.

Í gagnfræðadeildinni eru 63 nemendur úr Reykjavík, en ekki nema 9 úr sveit, og 4 af þessum 9 munu hafa í hyggju að lesa heima. Þá eru að eins fimm eftir, sem úr sveit koma.

Jeg get ekki heldur sjeð, að ástæða sje til að láta kennarana hjer ganga iðjulausa, þótt Akureyrarskólinn geti ekki starfað.

Nú sem stendur eru til óseld 2000 tonn at kolum, auk 300 tonna, sem komu í morgun, og mikil von er á, að við bætist bráðlega, þegar skip landsstjórnarinnar kemur, sem von er á í nálægri framtíð.

Og þar sem kolaeyðsla Háskólans og Mentaskólans getur ekki mikil talist, þá get jeg ekki sjeð, að ástæða sje til að loka þeim fyrir eldiviðarskort.

Ef stríðið heldur áfram, getur auðvitað svo farið, að nauðsyn verði á að loka öllum skólum næsta vetur, en þá er því ver farið, ef byrjað er á því áður en full nauðsyn krefur.

Jeg þarf ekki að lýsa því, hve mikla truflun það mundi hafa í för með sjer á lærdómi manna og öllu skólahaldi, ef lokað væri.

Jeg vil að eins benda á, hve mikla þýðingu það hefir, t. d. hjer í Reykjavík, að hafa börnin í skóla, en ekki á götum úti,

Sjerstaklega verður að minnast þess, þegar svo er ástatt, að ekki virðist neinum erfiðleikum bundið að halda barnaskólanum uppi.

Að því leyti sem það er talið hægra að taka upp skólakenslu síðari hluta vetrar, þá verð jeg að lýsa yfir því, að jeg er þar á gagnstæðri skoðun. Jeg álít miklu heppilegra að halda kenslunni uppi fyrri hluta vetrarins. Þá þarf venjulega miklu minna af eldiviði, að minsta kosti á Suðurlandi.

Jeg þarf svo ekki að eyða fleirum orðum að þessu máli að sinni. Jeg býst við, að hv. flutningsmenn færi einhverjar ástæður fyrir frv., og skal jeg því geyma mjer að svara þeim ástæðum, er þeir kunna að koma með. Að eins skal jeg geta þess, að mjer þætti heppilegast, að hv. deild kæmist að líkri niðurstöðu og hv, Nd., þó svo, að það sæist, hver vilji hennar er í þessu máli.