10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

189. mál, frestun á skólahaldi

Magnús Torfason:

Jeg verð að játa það, að jeg get skrifað undir margt af því, sem háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), og sjerstaklega háttv. þm. Ak. (M. K.), hefir sagt um þetta mál, og játa fúslega, að margar og mikilsverðar ástæður sjeu til að samþykkja frumv. Jeg skal ekki fara að taka neitt upp af þeim ástæðum, sem fram hafa verið færðar, en jeg hafði hugsað mjer að eins að lýsa ástæðunum eins og þær eru fyrir hendi í mínu kjördæmi, þar sem frv. þetta fer beinlínis fram á það að taka fram fyrir hendurnar á hjeraðastjórnum.

Ísfirðingar hafa búið sig nokkuð undir það að halda uppi barnaskóla í vetur; hafa þeir aflað sjer þó nokkurra kola til þess, því að bæjarstjórninni þótti mjög leitt að geta ekki notað þessa föstu starfskrafta, sem við skólann eru, og þarf að borga hvort sem er. Þess vegna varð það að ráði að halda uppi barnaskólanum á þann hátt að nota helminginn af kenslustofunum, láta halda áfram kenslu fram yfir nýárið og ef að herti, að láta þá halda próf, svo að einhver árangur sæist af kenslunni, og loka þá skólanum, ef á þyrfti að halda. Mjer fanst þetta ekki óskynsamlega hugsað hjá bæjarstjórninni, og hjelt jeg, satt að segja, að hjeraðastjórnum væri treystandi til þess að fara ekki að stritast við það fram í ófæru að halda skólum uppi. En það, sem sjerstaklega vakti fyrir okkur, var það, að við þar vestra eigum dálitla kolanámu, og höfðum búist við, að stjórnin myndi veita okkur stuðning til þess að vinna hana, en það hefir nú ekki orðið.

Samt sem áður hafði jeg hugsað mjer að vera með frv. þar til jeg hafði heyrt ummæli hæstv. forsætisráðherra. Jeg hefi talið horfurnar afarískyggilegar og að fullar ástæður væru fyrir því að stöðva alla skóla í vetur, ástæður, sem hæstv. forsætisráðherra ætti að vera allra manna kunnugast um, en úr því að hæstv. forsætisráðherra álítur alveg óhætt að halda skólum áfram, þá verð jeg að segja það, að jeg mun greiða atkvæði á móti því, að frumv. þetta fái að ganga til 3. umr., á hans ábyrgð.