10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í C-deild Alþingistíðinda. (3065)

189. mál, frestun á skólahaldi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg tel það ekki sem heppilegast að skiljast þannig við málið, að ekkert verði gert annað en að greiða atkvæði á móti frv. þessu, en jeg sje eiginlega ekki, að það hafi komið neitt verulegt fram þessu frv. til stuðnings, annað en óttinn við eldiviðarleysið. Jeg hefi tekið það fram, að sá ótti er ekki á rökum bygður; jafnvel þótt hjer yrði lítið fyrir hendi af útlendum kolum, þá veit jeg, að hjer er til allmikið af eldivið, sem aflað hefir verið í landinu sjálfu. (K. E.: En skipin?). Já, jeg skal lítillega koma að því síðar meir. Það er alveg satt, að ef ekki mætti byrja með skóla, nema ef hjer væru birgðir, sem næmi alt að 20000 tons, þá er ekki hugsandi til þess að sinni, en jeg held, að það hafi verið spaug hjá hv. þm. Ak. (M. K.) að heimta slíka tryggingu. Skýrslur þær, er safnað hefir verið um það, hvað hjer þyrfti mikil kol til notkunar í landi, hafa — að mig minnir — sýnt, að til þeirra þyrfti eitthvað um 8000 smálestir erlendra kola, en það er vitanlegt, að eins og nú er á statt, myndi ekki notaður helmingurinn á við það, sem vant er, þegar kolin eru svo dýr; það mundi alls ekki þurfa meira en 4000 smálestir. En ef menn vildu nú samt sem áður ekki leyfa að halda skóla fyr en trygt væri, að talsverður forði væri til, þá mætti setja einhver skilyrði að þessu leyti. Ef það svo kann ske kæmi fram rjett á eftir, að þessi ótti væri ástæðulaus, mætti þá að nokkru leyti kippa þessu í lag. En jeg lít nú svo á, að það sje ekki svo lítið til af eldivið hjer, að það væri óforsvaranlegt að byrja skólahald, en ef svo útlitið versnaði fram úr þessu, þá væri má ske rjettara að gefa stjórninni heimild til að láta hætta alveg við það.

Hv. þm. Ak. (M. K.) var að tala um sparnaðinn, en hann yrði ekki mjög mikill, þegar ætti að borga öllum kennurum eftir sem áður. — Mjer sýnist rjett, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að það væri ekki svo mikið óráð í því að láta sveitarstjórnir um það, hvort þær vildu halda sveitaskólum áfram, en takmarka að eins landsskólana. Annars finst mjer það ekki sitja vel á þinginu að tala svo mikið um sparnað, því að jeg verð að segja það, að jeg hefi ekki orðið var við neinn sjerlegan sparnað hjá því, t. d. í fjárlögunum. Jeg býst nú reyndar við, að segja megi um flestar fjárveitingarnar, að þær sjeu á rökum bygðar, en þegar verið er að tala svo mikið um sparnað, að menn vilja loka skólum landsins, þá hefði jeg búist við því, að meira myndi sparað í fjárlögunum.

Það getur vel verið, að það verði mjög dýrt fyrir hvern nemanda, sem er utanbæjarmaður, hvort sem það er í Reykjavík eða kaupstöðunum, en jeg held, að það sje vel í lagt, að það myndi kosta hann 1500 krónur. (M. K.: Í níu mánuði og með ferðum?). Þá er ekki sparlega á haldið, en það er þá hverjum í sjálfs vald sett, hvort hann sækir skóla eða ekki Þetta snertir ekki barnaskólana, því að börnin koma ekki fremur til bæjanna, hvort sem þeir verða haldnir eða ekki.

Jeg skal svo lítillega fara út í einstök atriði. Jeg hefi áður talað um það, að ef leyft væri, að Háskólinn starfaði nokkuð, þá væri rjettast að láta það undir ákvæði háskólastjórnarinnar sjálfrar, hvernig skólinn starfaði. Jeg hygg, að það sje ekki heppilegt ákvæði, sem hjer stendur, að kent skuli að eins í þeim deildum, sem eiga að ganga undir háskólapróf; mjer er sagt, að nemendum sje ekki skift þannig, heldur gangi t. a. m. elsta deild og næstelsta til sömu fyrirlestra. Jeg hefi áður tekið það fram, að sama sem ekkert sparaðist við það að leggja niður gagnfræðadeild Mentaskólans, vegna þess, að þar eru nær engir utanbæjarmenn.

Þá skal jeg geta þess, að mjer er kunnugt um, að annar búnaðarskólinn er víst

alveg undir það búinn að starfa í vetur, og myndi geta gert það án mjög mikilla annmarka.

Það er víst satt, að lítil líkindi eru til þess, að frv. þetta verði ekki samþ. í þessari hv. deild, en mjer þótti samt skylt að vera hjer við til þess að leggja á móti því. Jeg hlýt að taka það fram, sem álit mitt, að ekki sje rjett að fella niður skólahald fyr en sjeð er, að það sje alveg nauðsynlegt.