10.09.1917
Efri deild: 52. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í C-deild Alþingistíðinda. (3066)

189. mál, frestun á skólahaldi

Eggert Pálsson:

Jeg skal ekki vera langorður nje svara miklu af því, sem hæstv. forsætisráðherra sagði. Að eins vildi jeg, af því að jeg á sæti í fjárveitinganefnd, vísa þeim orðum hans á bug, að þingið hefði sýnt ósparsemi að því er fjárlögin snertir. (Forsætisráðherra: Það sagði jeg ekki). Jeg get ekki tekið það að mjer fyrir hönd Ed., og mjer virðist, að háttv. Nd. hafi ekki gengið langt í eyðslu, þegar tekið er tillit til þess, að næstum því allir verulegir útgjaldaliðir, sem tiltök hefði verið að spara, eru þannig ákveðnir, að stjórnin er ekki skyld til að láta fjeð af hendi til framkvæmda, nema því að eins, að það reynist ódýrara en nú eru horfur á, og annað nauðsynlegra reki ekki á eftir. Og eins og jeg tók fram í framsögu minni þá eru þær upphæðir samtals rúmar 300,000 krónur.

Þá vildi jeg að eins víkja fáum orðum að því, sem háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) sagði, þar sem hann benti á það, að hættan við kolaeyðslu til skólahalds yrði ekki svo mikil, vegna þess, að kolin myndu reynast miklu drýgri en undanfarið, sem sje vegna sparnaðarins. Háttv. þm. Ak. (M. K.) hefir bent á, að það er dálítið einkennilegt, ef nú verður hægt, frekar en endrarnær, að viðhafa sparnað í þessu, án þess að tjón verði að því. Jeg vil nú heldur ganga út frá því sem sjálfsögðu, að sæmilegs sparnaðar hafi verið gætt í þessu efni að undanförnu. Hafi svo verið, þá liggur það í augum uppi, að með hálfu meiri sparnaði en áður geti heilsu nemendanna verið hætta búin, enda þótt það sje vitanlega ekki mitt að dæma um það, heldur læknastjettarinnar. En væri það ráð tekið að stefna fólki saman í skólana og eldsneyti svo mjög sparað, að það sæti þar í meiri eða minni kulda, þá er jeg ekki í vafa um það, að stefnt væri til reglulegs þjóðartjóns. Ein veiki er það t. d., sem á ekki svo lítið rót sína að rekja til þess, að menn sitja oft margar klukkustundir saman í lokuðum herbergjum án þess að njóta sæmilegs yls; jeg á sem sje við berklaveikina. Það hygg jeg einróma skoðun lækna.

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. Ð.) sagði, að með því að sleppa skólahaldinu sparaðist svo lítið, vegna þess, að kolin væru svo dýr, að þau yrðu ekki keypt af einstaklingunum. En þá er mjer spurn, er þá alls ekki hugsanlegt, ef þingið finnur það ekki skyldu sína eða hvöt að hlaupa undir bagga með einstaklingunum, svo að þeir geti notað kolin, að sveitar- og bæjarstjórnir, sem vitanlega stendur það næst, geri það að einhverju leyti? Í lok ræðu sinnar kom háttv. 2. þm. K.-G. (K. D.) fram með beiðni um undanþágu, frá skólanefnd Flensborgarskólans. Og rak þar að því, sem jeg gat um áðan, að ef ein undanþága væri veitt, þá kæmi undir eins beiðni frá öðrum um hið sama. Ef gagnfræðadeild Mentaskólans væri leyft að halda áfram, þá kæmi Flensborgarskólinn auðvitað á eftir, og er þá ekki komið fram greinilegt misrjetti, ef Akureyrarskólinn á ekki að fá að starfa? Auðvitað vilja þá allir skólar brjótast áfram, til þess að standa jafnt að vígi í lífsbaráttunni. Með því að láta eitt og hið sama ganga yfir alla skólana er sýnt rjettlæti, en með því að gera undantekningar fyrir þennan eða hinn, af þeirri ástæðu að sá hinn sami hafi birgt sig upp, skapast einmitt misrjettið milli skólanna.

En svo kemur misrjettið til að ná til einstaklinganna líka. Háttv. þm. Ak. (M. K.) skaut því fram, og hygg jeg það rjett vera, því að hann er reikningsglöggur, að dvöl manns hjer mundi kosta um 1500 krónur. Af því leiðir svo það, að fjöldi mentamanna verður að hætta námi, ef skólunum er haldið áfram, eða verður að minsta kosti að dragast aftur úr. En verði skólunum lokað, þá standa allir jafnt að vígi.

En hvað það snertir, sem komið er inn í frv., að undantekning skuli vera um þá, sem eiga að taka próf við Mentaskólann eða Háskólann, þá skal jeg taka það fram, að sú undantekning er ekki með mínu samþykki gerð. Jeg álít, að það sama ætti að ganga yfir gjörvalla heildina, og engin undantekning að eiga sjer stað. Frá mínu sjónarmiði er það svo.

Eins og háttv. þm. Ak. (M. K.) mintist á eigum vjer einn ljós- og hitagjafa, sem ekki þarf að kaupa dýrum dómum, heldur veitir oss ókeypis ljós. og allmikinn hita, sjer í lagi síðari part vetrar, sem sje sólina, því að hennar nýtur þó miklu betur þegar fram á kemur en fyrri hluta vetrar. Og þó að það kunni að koma fyrir, að frost komi þá, haldast þau venjulega ekki nema nokkra daga, og sólin er þá hærra á lofti en í sjálfu skammdeginu.

Jeg skal svo ekki segja meira um þetta að sinni, en þar sem svo er á liðið þingtímann, þá virðist mjer, að eigi dugi að hafa sömu aðferð um þetta mál sem önnur, að fylgja þingsköpunum, því að sje það gert, þá mun háttv. Nd. varla gefast tækifæri til að segja álit sitt um þetta frv. Jeg vildi því leggja til, að skotið yrði á fundi aftur í dag, svo að málið þurfi ekki að daga uppi sökum tímaskorts, ef það yrði nú samþykt við 2. unir., því að Nd. verður einnig að fá að segja álit um þetta mál og útkljá það fyrir sitt leyti.