12.09.1917
Neðri deild: 58. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

189. mál, frestun á skólahaldi

Gísli Sveinsson:

Jeg stóð að eins upp til þess að gera grein fyrir atkvæði mínu.

Eins og þegar hefir verið tekið fram af hv. 2. þm. Árn. (E. A.) hefir þessi hv. deild nokkurn veginn skilmerkilega lýst yfir vilja sínum í þessu rnáli, að minsta kosti um merg málsins, í þingsályktunartillögu þeirri, er getið hefir verið. Að vísu var það svo, að ýmsir slógu sína varnagla með mismunandi formála; sumir voru kröfuharðir, en aðrir voru vægari. Jeg heyri nú frekar til þeim kröfuharðari. Vil jeg leggja hv. landsstjórn það mjög ríkt á hjarta að athuga þetta mál mjög rækilega, en það hefði hún raunar átt að vera búin að gera. Mjer virðist fullkomlega forsvaranlegt að loka þeim skólum, er jeg með tveimur orðum vil nefna kaupstaðaskóla og kolaskóla. Hinir fyrnefndu eyða miklum kolum, bæði hjer og í öðrum kaupstöðum, og eins eru þeir ofdýrir að sækja — fólki úr hjeruðum. Úti um land geta líka verið kolaeyðsluskólar. En jeg vil ekki, að rokið sje til að loka þeim skólum, sem bæði eyða litlu og bjargast á eigin spítur, og þar sem nemendur komast ódýrt af og t. d. leggja á borð með sjer. Jeg veit vel, að víða í kaupstöðum og úti um land er lagt kapp á, að skólarnir sjeu opnir þar, þótt hjer sje lokað. En alt verður þetta að fara eftir atvikum og ástæðum.

Hins vegar skal jeg ekki draga dulur á, að jeg hefi lýst yfir því á nefndarfundum um þetta mál, að jeg teldi allsendis óþarft að setja lög um þetta. Jeg finn ástæðu til að taka þetta fram, þar sem raddir hafa heyrst um, að allir nefndarmenn fjárhags- og fjárveitinganefnda beggja deilda hafi verið á einu máli um afgreiðslu Ed. á málinu. Jeg tel þingsályktunartill. alveg nægilega, enda er hún í samræmi við skoðun og vilja kenslumálaráðherrans. Og því síður tel jeg ástæðu til að hvarfla frá þingsályktun yfir í lög, sem jeg get ekki skoðað það annað en firru eina hjá nokkrum þm. í Ed., að lög þurfi til þessa.

Með þeirri skýringu, er jeg fyr hefi gefið, er jeg greiddi atkv. með þingsályktunartill., og í því trausti, að stjórnin fari heldur oflangt en skamt í þessu efni, mun jeg greiða atkv. með rökstuddu dagskránni. Jeg tel sjálfsagt og rjett, að framkvæmdarvaldið, stjórnin, hafi framkvæmd þessa máls á hendi. Hún hlýtur að standa betur að vígi í því efni, þótt hún sje þriggja manna stjórn, en alt þingið. Hún hefir betri tök á að kynna sjer og hafa kynt sjer málið. Væri ef til vill betra, að einn maður rjeði að fullu fram úr þessu á sína ábyrgð, en að þrír sjeu að fást við það. En, eins og sakir standa, verður stjórnin að afgreiða málið á sína ábyrgð, og því fremur er það rjett, sem jeg tel afgreiðslu málsins hjer í deildinni í samræmi við vilja forsætisráðherrans, þess ráðherra, er mest hefir með mál þessi að gera.