10.07.1917
Neðri deild: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Flm. (Þórarinn Jónsson):

Það er ekki meining okkar flutningsmanna að gera landssjóðsverslunina sem slíka að umræðuefni; til þess mun mega búast við tilefni síðar. Tillagan gengur að eins í þá átt að reyna að gera þessa verslun umfangsminni og ódýrari en nú er. Það er auðvitað við því að búast, þegar landið tekur að sjer að reka verslun, þá verði hún nokkuð umfangsmikil, jafnvel þótt reynt sje að hafa sem fæsta milliliði, sem jafnan eru taldir óhentugir. Í því skyni, að bæla nokkuð úr þessu, hefir okkur hugkvæmst, að hægt mundi að fela sveitarstjórnum þann starfa, sem sýslumenn hafa hingað til haft á hendi að þessu leyti. Þetta verðum vjer að telja allmikilsvert atriði, svo framarlega sem landsstjórnin treystir ekki miður þessum lægri stjórnarvöldum að fara með starfið en sýslumönnunum. Sýslumennirnir hafa verið eins konar deildarstjórar í þessari verslun, en haft svo sveitarstjórnir undir sjer, og á þær hefir aðalstarfið fallið, án þess að þær hafi fengið nokkurt endurgjald, af þeirri ástæðu, að sveitarfjelögin eru ekki fær um að bera aukinn kostnað af þessu. Okkur hefir nú komið til hugar það fyrirkomulag, að landsstjórnin sendi á hvern verslunarstað svo mikið af vörum, sem hún telur nægja handa þeim, sem þangað eiga sókn, en hreppsnefndirnar hafi þar mann eða menn, til þess að taka við vörunum og skifta þeim niður.

Það hafa auðvitað verið töluverðir erfiðleikar á því í fyrstu, að koma þessari verslun í framkvæmd. Landsstjórninni hefir þótt það hægast að hafa sýslumennina til útbýtingar á vörunum. En af þessu fyrirkomulagi leiðir mikla örðugleika alstaðar þar, sem jeg þekki til, sendiferðir, hraðboð og skeyti. Það segir sig sjálft, að þessir örðugleikar mundu mjög rjena, ef svæðið væri minna og sveitarstjórnum falið starfið, eins og við leggjum til.

Annað atriði, sem til tals hefir komið í þessu sambandi, er það, hvort hreppsnefndir gætu haft kaupfjelög og kaupmenn að milliliðum. Þegar landsstjórnin byrjaði að senda út vörurnar, þá gerði hún ráð fyrir því, að kaupmenn tækju að sjer sumar vörurnar, t. d. sykur, og fengju þóknun fyrir. En nú er svo komið, að kaupmenn og kaupfjelög vilja ekki taka að sjer vörurnar; þeim finst ekki borga sig fyrir þessa litlu þóknun að taka að sjer afhending og ábyrgð á rýrnun vörunnar. Eins og landsstjórnin um eitt skeið ætlaði sjer að taka að sjer verslun á öllum vörum, eins hefði hún þá þurft að taka að sjer kaup á innlendu vörunum, því að ella yrðu sveitirnar illa úti, og kaupmenn þó raunar ver. En vafamál er það, hvort rjett sje að útiloka kaupmenn frá versluninni, og sýna síðari aðgerðir landsstjórnarinnar, að hún hefir horfið frá þessari stefnu.

En að hafa sýslumenn að milliliðum virðist vera í ósamræmi við embætti þeirra, enda þekki jeg þá þeirra, sem er ekki vel við þetta og vilja helst vera lausir við verslunina. Það er kunnugt, að oft vill verða dráttur hjá sýslumönnum í embættisgerðum þeirra, og vafasamt væri, hvort gilt yrði tekið, ef þeir bæru þá fyrir sig, að þeir hefðu ekki haft tíma, vegna þess, að þeir hafi þurft að vigta landssjóðssykur eða skifta mjölpoka; að minsta kosti mundu æðri dómstólar ekki taka það gilt.

En þá er kostnaðarhliðin. Mjer er kunnugt um vörur, sem farið hafa í eina sýslu landsins frá því í febrúar síðastl., og hefi gert yfirlit yfir þær síðan, eða í 5 mánuði; auðvitað er töluvert eftir af þeim óeytt enn, svo að af þessu verður ekki sjeð, hve mikið myndi flytjast yfir árið. Sykur hefir verið fluttur þangað fyrir um 50 þús. kr. Fyrir að skifta honum milli kaupenda fær sýslumaðurinn 2%, eða 1000 kr. Af öðrum vörum hefir verið flutt þangað fyrir 75 þús. kr., og með sama mælikvarða, sem búast má við, þótt ekki sje hann ákveðinn, nema útbýtingarlaunin 1500 kr. Með öðrum orðum, á fimm mánuðum nema útbýtingarlaun í einni sýslu 2500 kr. Jeg hefi ekki athugað, hve mikið hefir verið flutt af vörunum út um alt landið, en ef miðað er við þessa sýslu, má gera ráð fyrir, að í þennan kostnað fari alt að 30 þús. kr. yfir þessa fimm mánuði. Og eftir því ætti upphæð þessi að verða að minsta kosti tvöföld, ef um það væri að ræða, að mikill hluti af vörum til landsins gengi þessa leið.

Auðvitað verður að ganga út frá því, að greiða verði sveitarstjórnunum einhverja þóknun, en jeg er viss um það, að þær mundu verða vægar í kröfum, enda mundi starf þeirra lítt vaxa, þótt sýslumönnum væri kipt burt, svo að af þessu myndi leiða kostnaðarljetti fyrir landssjóð.

Jeg tel rjett, að málið sje athugað í nefnd, og legg þá til, að því sje vísað til bjargráðanefndar, er þá athugi, hvort ekki sje unt að finna aðrar sparnaðarleiðir í þessu efni en þá, sem í tillögunni felst.