10.07.1917
Neðri deild: 7. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg gæti í raun og veru fallið frá orðinu vegna síðustu orða í ræðu hins hv. flm. (Þór. J.), þar sem hann kom fram með tillögu um að vísa málinu til bjargráðanefndar, en það var einmitt það, sem jeg ætlaði að mælast til að yrði gert. Það er ýmislegt, sem mælir með þessari tillögu, en líka ýmislegt, sem er mjög athugavert við hana, en jeg vil ekki tefja tíma þessarar háttv. deildar með því að taka það fram að svo komnu máli, því að ef málinu verður vísað til bjargráðanefndar, sem er sennilegt og eðlilegt, mun sú nefnd leita sjer upplýsinga hjá úthlutunarnefndinni og landsstjórninni. Jeg vildi því styðja þá tillögu, að málinu verði vísað til bjargráðanefndar.