04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í C-deild Alþingistíðinda. (3095)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Magnús Pjetursson:

Af því, að jeg er meðflutningsmaður þessarar tillögu, þá kann jeg ekki við annað en segja nokkur orð henni til stuðnings, þótt það kunni að verða nokkuð líkt og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) og hv. þm. Borgf. (P. O.) hafa tekið fram. — Mjer hefir ekki enn skilist, hvorki af því, sem hv. meiri hluti bjargráðanefndar nje hæstv. atvinnumálaráðherra hefir sagt, í hvaða tilgangi sýslumenn eru hafðir fyrir milliliði. Og ástæður þær, sem fram hafa verið færðar fyrir þessu, eru svo veigalitlar, að jeg skil. ekki, að það eigi að vera höfuðástæður. — Það er þá fyrst, að það sje þægilegra fyrir stjórnina að eiga við sýslumenn um innheimtuna. — Það kann nú svo að vera, að það sje þægilegra að fá borgunina frá einum manni; en að það sje nokkru meiri trygging, þó að sýslumenn annist þetta, heldur en sveitarstjórnir, það á jeg ómögulegt með að skilja, því að það eru ekki sýslumenn, sem borga vörurnar, heldur eru það sveitarstjórnir. Og það er ekkert, sem gefur mönnum ástæðu til að halda, að þær borgi sýslumönnum nokkru fyr en þær mundu borga stjórninni.

Það mætti heita undarlegt, ef landsverslunin á annað borð þarf að hafa þessa deildarstjóra úti um land, að það þyrftu þá endilega að vera sýslumenn, því að það er kunnugt að þeir eru ekki altaf svo vel settir, og má ske ekki heldur svo vel fallnir til þessa starfa, að það liggi beinast við. Ef þetta er talið óhjákvæmilegt, að hafa deildarstjóra í hverri sýslu, þá hygg jeg, að fult eins heppilegt væri að taka til þess sjerfróða menn, en ekki endilega sýslumenn.

Annars skilst mjer að stefna „Tímans“ í verslunarmálum sje sú, að fækka milliliðum, en ekki að fjölga þeim. En með þessu er einmitt verið að fjölga milliliðum, og er því hin mesta furða, að hæstv. atvinnumálaráðherra skuli ljá því liðsyrði. — Það er þó ekki svo að skilja, að jeg sje að telja sýslumennina undan þessu, ef það gæti verið til gagns almenningi. — Það vakir ekki annað fyrir mjer en það, að almenningur borgi ekki vöruna dýrara en nauðsynlegt er.

Hæstv. atvinnumálaráðherra gat þess í ræðu sinni, að þetta væri að grípa til örþrifaráða, að vísa málinu til stjórnarinnar. Jeg er honum alveg sammála um þetta. Það er sannarlega örþrifaráð fyrir hv. Alþingi að vísa aftur til umsjónar stjórnarinnar því, sem henni hefir áður farist óhöndulega. En jeg sje hins vegar ekki, að til þess þurfi að taka, því að það má vel ráða þessu máli til lykta á annan hátt en þennan, nfl. þann, sem við höfum bent á.

Mjer þótti vænt um að heyra það hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að ekkert væri nú því til fyrirstöðu, að kaupmenn og kaupfjelög gætu fengið vörurnar, því að mjer er kunnugt um, að það hefir valdið talsverðri gremju úti um land einmitt þessi aðferð, að láta sveitarstjórnir einar fá vörurnar, en varna þess eða banna, að kaupmenn og kaupfjelög fengju vörurnar. Hafa hreppsnefndirnar svo aftur þeim mun betra skyn á þessu, að þær hafa síðan fengið kaupmönnum vörurnar í hendur gegn sanngjarnri þóknun. Annars hefir þetta víst verið alt á reiki hjá stjórninni, eins og fleira. Stundum hafa kaupmenn og kaupfjelög fengið vörurnar, en í annan tíma ekki, sumir kaupmenn hafa fengið þær, en aðrir ekki. Hvað þessu hefir valdið, er mjer óskiljanlegt og líklega öllum. En það leit svo út í vetur og var þannig skilið af sýslumönnum, að kaupmenn mættu ekki fá vörurnar.

En hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) hefir nú sýnt fram á það með rökum, hver nauðsyn ber til þess, að kaupmenn fái vörurnar, ef þeir vilja, gegn sanngjarnri álagningu. Því að hvernig eiga bændur að fá peninga til að borga vörurnar? Því að mjer skilst, að ekki geti komið til mála, að landsstjórnin fari að gerast kaupandi að íslenskum afurðum, það er að segja, geti tekið á móti kjöti, ull og fiski o. fl., á sama hátt og kaupmenn. — Ef það er meiningin, sem kom í ljós hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að stjórnin muni liðka svo til, að hreppsfjelögin geti snúið sjer til verslunarskrifstofunnar og fengið vörurnar eftir beinni pöntun, eftir meðmælum frá hlutaðeigandi sýslumanni, — ef þetta er meiningin, þá fæ jeg ekki skilið, til hvers sýslumennnirnir eru hafðir eða meðmæli þeirra, nema ef það ætti að vera sem trygging fyrir því, að hreppurinn sje borgunarfær. (Atvinnumálaráðh.: Það er aðallega vegna þarfarinnar). Jeg geri ráð fyrir að þær skýrslur, sem safnað var í vetur, sjeu í fórum stjórnarinnar, og af þeim getur hún sjeð, hvað hver hreppur þarf, eða að minsta kosti getur hún altaf haft í höndum samskonar skýrslur og sýslumenn hafa til að fara eftir. Auk þess sje jeg ekki, að nein hætta gæti af því stafað, þó að einn hreppur safnaði að sjer meiri vörum en annar, svo framarlega sem þær eru nógar til. Sýslumenn mundu varla neita hreppi um meðmæli til vörukaupa, þótt aldrei nema honum væri kunnugt um, að hann væri vel birgur. En á þessu er lítil hætta, því að menn gætu ekki borgað slíka birgðasöfnun. — Það er því erfitt að skilja, hvers vegna sýslumenn eru taldir svo nauðsynlegir milliliðir, ef starf þeirra á ekki að vera annað en að gefa þessi umræddu meðmæli. — Dálítið öðru máli er að gegna ef vörur eru lagðar upp víða úti um land án pöntunar. — Þá gæti komið til mála að hafa einhvern til að hafa umsjón með þeim, og þá sýslumenn, ef svo hagaði til, að vel færi á, en annars einhvern annan, sem hefði betri aðstöðu. Jeg vil geta þess, áður en jeg sest niður, og taka í sama strenginn og hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), að þessi tillaga okkar hefir verið æði lengi á leiðinni, og hv. bjargráðanefnd þurft óeðlilega langan tíma til að melta ekki stærri tillögu en þessi er. Jeg vil þó ekki vera með neinar getsakir, og vona, að það hafi ekki verið meining nefndarinnar, hvorki með þessa tillögu nje aðrar, að láta þær ekki koma fram fyr en það er um seinan, svo að þær komi ekki að haldi. Og jafnframt vil jeg leggja áherslu á, að hún sofni ekki væran á svona tillögum, þótt hæstv. stjórn kynni að reyna að koma henni í ró.