04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í C-deild Alþingistíðinda. (3096)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Hákon Kristófersson:

Jeg skal ekki lengja mikið umr., en finst þó hlíta að standa upp og þakka hv. flm. fyrir till., því að jeg álít hana ganga í rjetta átt.

Hv. meiri hluti bjargráðanefndar virðist ekki geta fallist á, að það sje rjetta leiðin í þessu máli, að viðkomandi sveitarstjórnir geti milliliðalaust snúið sjer til verslunarskrifstofu landssjóðs. Án þess, að jeg vilji gera lítið úr þessari niðurstöðu hv. meiri hluta, get jeg ekki verið á sama máli. Mjer blandast ekki hugur um, að það sje langhagfeldast fyrir viðskiftamennina, að milliliðir sjeu sem fæstir, því að hver milliliður hlýtur að leiða af sjer kostnaðarauka. Með tilliti til verðsins á vörunni er jeg sannfærður um, að hagfeldast sje, að sem minst sje af óþörfum milliliðum. Jeg verð að álíta, að ef þessi till. nær ekki fram að ganga, felist í því ekki svo lítið vantraust á sveitarstjórnum þessa lands. Og það er ekki neitt vantraust til hæstv. stjórnar, þótt jeg segi, að jeg trúi henni eða sýslumönnum ekki betur en sveitarstjórnunum.

Hæstv. atvinnumálaráðh. benti á, að sýslumenn geti vanalega best sagt um þörfina fyrir vörurnar. Jeg get alls ekki sjeð, að þetta sje rjett, því að vitanlega veit hver sveitarstjórn langbest, hvar skórinn kreppir að í hennar bygðarlagi. Það leiðir því af líkum, að allar þær skýrslur og upplýsingar, sem sýslumenn gefa eða geta gefið, eru bygðar á skýrslum frá hreppsnefndunum. Og það er alls ekki frambærileg ástæða, að sveitarstjórnir muni biðja um meira af vörum en þörf er fyrir í viðkomandi sveit. Það er mjög ótrúlegt, að nokkur sveitarstjórn muni biðja um meira af vörum, með jafnháu verði, en hún þarf. Sami hæstv. ráðherra kvaðst vilja taka sem mest tillit til óska hjeraðanna. Því þá ekki fult tillit? Sú ósk mun ríkjandi í hverju hjeraði, að þessi viðskifti sjeu gerð svo auðveld og einföld sem mögulegt er. Og það er kunnugt, að svo eru staðhættir í mörgum hjeruðum, að ekki er gott að ná til sýslumanns að fá meðmæli. Jeg skal benda á víðlend hjeruð, þar sem sýslumaður situr í öðrum enda. Jeg vil benda á t. d. Barðastrandarsýslu. Þar er austasti hreppurinn Geiradalshreppur, en hinn vestasti, eða með vestustu hreppunum, Patreksfjarðarhreppur, og þar situr sýslumaðurinn. Þá verður hreppsnefnd Geiradalshrepps að senda fyrst vestur til sýslumanns, í stað þess að senda pöntun sína beina leið suður með pósti. Jeg get ekki betur sjeð en að sýslunefndir geti haft eftirlit með vörupöntunum, hver í sínu bygðarlagi, þótt till. væri samþ., og mjer blandast ekki hugur um, að ef einhver hreppur ætlaði að viða að sjer miklu meiru en hann þyrfti með, þá mundi fljótt tekið í taumana, ef slíkt kæmi fyrir.

Hæstv. atvinnumálaráðh. benti á, að sum atriði, sem hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) tók fram, kæmu ekki málinu við. Það get jeg ekki viðurkent rjett vera. (Atvinnumálaráðherra: Sagði, að það lægi ekki fyrir). Þau atriði, er hann tók fram, voru öll málinu náskyld og lágu því fyrir. Það leiðir af sjálfu sjer, að það væri mjög heppilegt, ef hreppsfjelög, sem afstöðu sinnar vegna hljóta að eiga bein viðskifti við kaupmenn, gætu snúið sjer til þeirra með tilmælum um þann og þann vöruforða, í stað þess að þurfa að snúa sjer fyrst til hlutaðeigandi sýslumanna. Mjer er ekki vel kunnugt, hvað sýslumenn hafa fyrir þessa umsjón á landssjóðsvörum, en býst við, að það sje eitthvað talsvert, varla minna en 2%, og með því verði, sem nú er á vörunni, verður það ekki svo lítil upphæð fyrir hvert hreppsfjelag, og jeg verð að slá því föstu, að hægt sje að losna við þann kostnaðarauka, og að það sje bæði rjettmætt og nauðsynlegt að losa landsmenn við hann.

Mun jeg því greiða atkv. með till. hv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) o. fl., en móti till. hv. meiri hluta bjargráðanefndar.