04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í C-deild Alþingistíðinda. (3097)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Frsm. meiri hluta (Þorsteinn Jónsson):

Ef till. á þgskj. 40 yrði samþ., yrði landsstjórnin bundnari en nú, en verði hún ekki samþ., heldur hin einfalda dagskrá meiri hlutans, hefir hún óbundnar hendur og getur hagað umsjón og afhendingu vörunnar eins og verið hefir eða breytt henni í ýmsum atriðum, eftir því sem hún sjer best henta. T. d. í nærsveitunum við Reykjavík eru óþörf afskifti eða umsjón sýslumanna á landssjóðsvörum, og hafi landsstjórnin heimild til að breyta eins og henni sýnist í máli þessu, getur hún gefið þeim undanþágu.

Eins og jeg tók fram áður bjóst jeg við, að það hefði einkum verið kostnaðarhliðin við þá tilhögun, sem nú er um útsendingu landssjóðsvaranna og umsjón, sem kom háttv. flutningsmönnum til að flytja till. Sýslumenn fá að vísu einhverja þóknun, eftir því sem jeg hefi heyrt, en hún mun vera fremur lítil og mjög sanngjörn. (H. K.: Hve mikil er hún?) Jeg held 2%.

Jeg hefi talað við þann mann, sem nú er forstjóri landssjóðsverslunarinnar, og telur hann óheppilegt, ef þingið byndi mjög hendur stjórnarinnar í þessu máli. Jeg hefi heyrt hjá flutningsmönnum óánægju yfir, að bjargráðanefnd hafi legið lengi á till. Það er rjett, að till. hefir verið lengi hjá bjargráðanefnd, en það er ekki sök allrar nefndarinnar. Till. gleymdist um tíma, og það er jeg og annar maður til, sem á sök á því, en ekki nefndin í heild. Háttv. þm. Barð. (H. K.) taldi það lýsa vantrausti á sveitarstjórnum, ef till. væri ekki samþ. Það er langt frá því, að hjer sje um nokkurt vantraust að ræða, en jeg tók það fram áður, að það er móti till. landsstjórnarinnar, og það er meining bjargráðanefndar, að það sje svo miklu umfangsmeira og erfiðara fyrir stjórnina og forstjóra landsverslunarinnar að skifta við öll sveitarfjelög en einungis við sýslumennina. Svo ber þess að gæta, að sýslumenn eru hinir venjulegu milliliðir milli sveitarstjórna og landsstjórnar. Hver sýsla ber ábyrgð á sínum hreppum. Þetta fyrirkomulag er því formrjett, því að landsstjórnin á aðgang að sýslunefndum eða oddviti þeirra, sýslumönnum, og sýslunefndir og sýslumaður að hreppsnefndum.

Annars skal jeg lýsa yfir því, að þetta mál er mjer ekkert kappsmál, en jeg lít svo á, að óheppilegt sje að samþ. þessa tillögu, vegna þess, að hún bindur um of hendur landsstjórnarinnar í þessu rnáli. Jeg álít, að Alþingi eigi ekki að fara út í smáatriði við þessa landssjóðsverslun. Auðvitað má segja, að það sje ekkert smáatriði, ef landsmenn bíða tjón við þá tilhögun, sem nú er, og varan mundi verða ódýrari, ef breytt yrði til. Jeg er nú ekki viss um, að svo sje, en verð að bera svo mikið traust til landsstjórnarinnar og þeirra manna, er fyrir versluninni standa, að svo muni með farið, að þjóðinni verði sem hagkvæmast og vörurnar sem ódýrastar.

Hvað það snertir, að fá kaupmenn og kaupfjelög til að selja vörurnar, má geta þess, að svo hefir verið áður. En þótt tekin væri upp sú aðferð, að kaupmenn og kaupfjelög fengju eingöngu landssjóðsvörur til úthlutunar, er jeg ekki viss um, að þau myndu vilja taka að sjer afhendingu þeirra, ef þau fengju ekki nema lágt hundraðsgjald í staðinn. Jeg veit um kaupmenn, sem ekki voru ánægðir með að afhenda landssjóðssykurinn, töldu sinn gróða svo lítinn, og töldu jafnvel tap að skifta sykrinum fyrir þær „prósentur“, er þeir máttu leggja á. Og jeg get hugsað mjer, að líkt færi um aðrar vörur, að kaupmenn vildu fá meira fyrir snúð sinn og snældu. Þeir eru víst vanir að fá meira í ágóða af vörum sínum en því svarar, sem landsstjórnin myndi leyfa þeim að leggja á landssjóðsvörurnar fyrir það að afhenda þær.