04.09.1917
Neðri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í C-deild Alþingistíðinda. (3103)

40. mál, umsjón á landssjóðsvöru

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er líklega óþarfi að ræða þetta mál miklu meir, því að hæstv. atvinnumálaráðherra og hv. frsm. (Þorst. J.) hafa tekið fram flest af því, sem þarf að segja.

Jeg vil einungis leggja áherslu á það, að það er mjög varhugavert að banna. stjórninni að hafa sýslumennina fyrir umboðsmenn sína við úthlutun landssjóðsvaranna. Þeir eru umboðsmenn stjórnarinnar við alla aðra innheimtu, og hafa því á hendi alla ábyrgð fyrir borguninni á vörunum, eins og við aðra innheimtu. Nú má ef til vill segja, að oddvitar hreppsnefndanna beri þá ábyrgðina í staðinn, en þá er þess að geta, að það er mikill munur á því fyrir stjórnina, hvort hún á að eiga við 200 menn eða 17 um borgunina. Og auk þess verður ekki annað sagt en að meiri trygging sje í sýslumönnunum heldur en í hreppsnefndaroddvitunum.

Ef þingið skipaði stjórninni að fara þessa leið, þá mundi stjórnin fara að hugsa sig um, hvort hún ætti ekki að segja við sveitarstjórnirnar, að þær fengju engar vörur nema fyrir borgun út í hönd. Þess vegna vil jeg fallast á dagskrána með þeim breytingum, sem stungið hefir verið upp á af hv. 1. þm. S.-M, (Sv. Ó.).

Það er ekki rjett, sem sagt hefir verið, að stjórnin hafi meinað kaupmönnum og kaupfjelögum að hafa á hendi úthlutum varanna. Jeg veit ekki til þess, að slík ráðstöfun hafi nokkurn tíma komið frá stjórnarráðinu, og tel það enda alveg óhugsandi, að slíkt hafi komið fyrir.

Verslunarskrifstofan mun haga því svo, að sem minstur kostnaður og örðugleikar verði að. Annars hefir meiri hluti bjargráðanefndar og atvinnumálaráðherrann tekið flest fram, sem þörf er á. Jeg vona fastlega, að hv. deild fari ekki lengra en að samþykkja dagskrá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.).