18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í C-deild Alþingistíðinda. (3111)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Fjárhagsnefndin, sem fjekk frv. það, er fram kom um einkasölu landssjóðs á kolum, til meðferðar, var á einu máli um, að það ætti ekki að ganga fram á þessu þingi. Hins vegar er nefndin öll hlynt hugmyndinni, og vill stuðla að því, að þetta mál verði tekið til alvarlegrar athugunar og undirbúnings, og kom því með þingsályktunartillögu þá, er hjer liggur fyrir. Hún fer fram á, að hv. Alþingi skori á stjórnina að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt þing frv. til laga um einkasölu landssjóðs á kolum.

Tilgangur og ætlun nefndarinnar er, að þingsályktunartillaga þessi komi algerlega á stað frv. þess um einkasölu landssjóðs á kolum, sem komið hefir fram á þessu þingi. Ástæðurnar fyrir því eru hinar sömu og nefndin hefir áður látið uppi. Henni þykir ekki ráðlegt að demba nú á landssjóð einkasölu á fleiri en einni vörutegund. Það er því óþarft, eins og málið horfir nú við, að ræða nokkuð frv. hv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Meining nefndarinnar með því að vísa þessu máli til landsstjórnarinnar er ekki sú, að málið skuli svæft eða moldað. Jeg vildi slá þennan varnagla, vegna þeirra einkennilegu orða hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), að meiningin með þingsályktunartill. væri sú, að stjórnin jarðaði málin. Það er einmitt tilætlun nefndarinnar, að stjórnin skuli undirbúa málið til síðari tíma. Stjórnin er nú í þann veginn að fá í hendur lög um einkasölu á steinolíu. Það má segja, að það sje ekki æskilegt, að landssjóður fari að versla með vörur í stórum stíl, en þó verða að vera undantekningar, og þær fleiri en ein, sem sje með þær vörutegundir, sem eru handhægar til stórsölu og bráðnauðsynlegar landsmönnum. Þar að auki er svo ástatt með steinolíu, og jafnvel kol líka, að á þeim vörutegundum er að verða einokun. Það viðurkenna allir með steinolíuna, og því verður ekki með rökum neitað, að það er að komast í líkt horf með kolin. Það er því rjett, að landssjóður taki einkasölu slíkra vörutegunda í sína hönd.

Nefndin telur sjálfsagt, þegar um þessar undantekningar er að ræða, að landssjóður. fái allálitlegan ágóða af einkasölunni, og hún ætlast til, að á sínum tíma komi frv. frá hv. stjórn, sem geri ráð fyrir hæfilegum gróða fyrir landssjóð af kolaversluninni, og það getur orðið ekki eingöngu landsmönnum að skaðlausu, heldur þannig, að þeir verði yfirleitt betur settir en nú.

Jeg ætla ekki að svo stöddu að tala meira um þetta mál. Jeg tel óþarft að rekja ástæður fyrir því, að það er fram komið einmitt nú, þegar svo tilfinnanlegur skortur er á þessum vörutegundum, sem landsstjórnin hefði getað sjeð landinu fyrir, ef verslun á þeim hefði verið undir umsjón og ábyrgð hennar. Þá væri og sjávarútvegurinn betur staddur en hann er nú; eins og nú er komið hjá oss er hann að miklu eða mestu leyti bygður á tilveru þessara vörutegunda.