18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í C-deild Alþingistíðinda. (3113)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Fjármálaráðh. (B. K.):

Jeg skal taka það þegar fram, að jeg hefi ekki borið mig saman við stjórnina um þessa till., og það, sem jeg segi því nú, segi jeg algerlega fyrir eigin reikning. Það lítur svo út, að till. þessi fari skemra en frv., en við nánari athugun sjest, að það er ekki mikið. Stjórnin á að bera fram fyrir næsta reglulegt þing frv. til laga um einkasölu landssjóðs á kolum. Munurinn er að eins sá, að málinu er frestað, en stefnan er sú sama. Eins og kunnugir menn vita er hjer nú engin einokun á kolum. Fram að stríðsbyrjun var mikil samkepni um þá vöru, og versluninni var jafnvel skift milli fleiri þjóða, bæði Norðmanna, Frakka og Íslendinga. Það er ekki nema eðlilegt, þótt útgerðarfjelögin slái sjer saman um að fá vörur, til að geta fengið þær ódýrari.

Samkepnin var fullkomin í kolaversluninni fyrir stríðið, og eins mun verða eftir það. Veit jeg að minsta kosti, að franska firmað, sem hefir starfað hjer undanfarið, ætlar sjer að halda áfram að stríðinu loknu. Tillagan getur því ekki verið komin fram í öðrum tilgangi en þeim, að ná sem mestum skatti af kolum í landssjóð. En þar verður að gæta alls hófs. Þegar svo stendur á, eins og hjer, að samkepni á sjer stað, þá má alveg eins ná skattinum með tolllögum.

Jeg held annars, að hv. flutningsmenn hafi ekki gert sjer ljósa grein þess, hve umsvifamikið það yrði, að landið tæki að sjer alla kolaverslun. Jeg skal geta þess, til skýringar fyrir þá, að árið 1916 voru flutt hingað til lands 113 þús. tonn af kolum, og þurfti til þess 14 skip, hvert á stærð við „Ceres“. Auðvitað væri þetta ekki svo gífurleg fyrirhöfn, ef flytja mætti öll kolin á eina höfn, en nú verður að flytja þau á fjöldamargar smáhafnir, og þá vandast málið. Það hefir verið haft svo, með kolaverslun á smáhöfnunum, að skip, sem leigð voru að vorinu, hafa skotist eftir kolum og salti til Englands um mitt sumarið, en flutt svo vörur frá landinu á haustin. Jeg sje því ekki annað en að verslunin yrði dýrari, ef hún væri öll flutt á eina hönd. Einnig er annað, sem bendir á, að landið geti ekki selt kolin ódýrara en kaupmenn, og það er, að kaupmenn eru margir á sífeldu ferðalagi, og eiga því oft hægt með að komast að hagfeldum kaupum og sæta hagkvæmari flutningskjörum en landssjóður.

Það verður ekki um það neitt af viti, að það er stefnumunur á frv. um kolaeinokun og steinolíueinokun. Á steinolíu er nú sem stendur fjelagseinokun, en henni á að breyta í landseinokun; en hjer er frjálsri verslun breytt í einokun. Þetta er mjög varhugavert spor, ef stigið verður. Það er satt, að í öðrum löndum er einokun á ýmsum vörum, en það eru venjulega þær vörur, sem telja verður óþarfar, en ekki á nauðsynjum, og jeg trúi ekki öðru en að Íslendingar tækju þeirri ráðabreytni illa að koma hjer á einokun á nauðsynjum, eftir þá sögulegu reynslu, sem þeir hafa af henni fengið.

Jeg hefi hjer áður bent á, að landsverslunin yrði að öllum líkindum dýrari en samkeppnisverslunin, sem nú er. En nú dettur mönnum ekki í hug að láta landið reka frjálsa verslun. Það mundi tryggja lágt verð betur en einokunin gerir. Jeg sje ekkert á móti því að reyna það. Það myndi þá sýna sig, hvort landið gæti verslað á þennan hátt.

Ef þetta mál væri borið fram af fyrirhyggju, þá ætti það að liggja til grundvallar, að framleiðendurnir í landinu óskuðu þess. Nú stendur svo á með þetta mál, að það hefir hvergi verið rætt á þingmálafundum og ekki heldur í blöðunum, sem þó hefði verið nauðsynlegt. Það eina, sem fram er komið í þessu máli, og hægt er að byggja á, er skjal frá 11 útgerðarmönnum. Þar segir svo í lok skjalsins: „Ef þetta frv. yrði að lögum, þá myndi það hnekkja öllum botnvörpungaútveg vorum“. Þetta skjal ber það ljóslega með sjer, að útgerðarmennirnir treysta því ekki, að landið geti komist að hagkvæmari kaupum á kolum heldur en þeir sjálfir. En meðan svo standa sakir, að þeir, sem kolin eiga að nota, eru þessari breytingu mótfallnir, get jeg ekki verið því samþykkur, að farið sje út á þessa braut.