18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í C-deild Alþingistíðinda. (3116)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Matthías Ólafsson:

Jeg get verið samdóma frsm. (G. Sv.) um, að það nær ekki nokkurri átt að bera einokun þá, er hjer er um að ræða, saman við einokun fyr á tímum. Nú eru fjármálin í hendi innlendrar landsstjórnar. Nú er tilgangur einokunarinnar sá, að varan verði ódýrari og landssjóður græði á henni. Að slíkri einokun yrði ekki skaði, nema ef telja skyldi skaða þeirra, sem áður höfðu hag af að versla með vöruna. En hagur þeirra verður að víkja fyrir hag almennings.

Þá er fyrirkomulagið. Það tvent er hugsanlegt, að landsstjórnin hefði annaðhvort sjálf verslunina með höndum, eða fæli öðrum mönnum fyrir sína hönd; greiði þeir svo ákveðið gjald í landssjóð fyrir einkarjettinn. Hið síðara væri heppilegra. Þá væri trygging fyrir því, að kunnugir menn fengjust við verslunina. Landsstjórnin, sem búast má við að velt sje árlega, hefði hvorki þekkingu nje kunnugleika til, auk þess sem það er ekki fýsilegt, að landsstjórnin hafi svo og svo marga menn, sem lifðu af hennar brauði. Það væri auðveldur vegur fyrir hana til að afla sjer atkvæða með.

Ýmislegt af því, sem frsm. (G. Sv.) sagði, var lítt hugsað. Hann vildi t. d. vefengja, að flutningur á kolum yrði öðrum ódýrari en landsstjórninni. Það er alkunnugt, að kaupmenn flytja hingað kol á skipum, sem annars kæmu tóm til landsins, t. d. skipum þeim, sem sækja fiskinn, eða þeir senda ýmsar vörur með kolaskipum, sem ella færu tóm frá landinu. En skip stjórnarinnar færu oftast farmlaus, eða yrði miklu óvissara um farm með þeim en skipum kaupmannanna.

Það er fjarri því, að jeg sje mótfallinn einokun. Þó hefði jeg heldur viljað, að þingsályktunartillagan væri orðuð svo, að stjórnin væri ekki skuldbundin til að leggja fram ákveðið frv. á næsta þingi, heldur skyldi hún yfirleitt yfirvega kolaeinokunarmálið. Frestun til næsta þings yrði og góð til þess, að almenningur fengi tækifæri til að ræða málið í blöðum og á fundum. Jeg er einokun á kolum hlyntur og álít, að henni mætti koma svo fyrir, að andsstjórninni ykist ekki mjög erfiði við. Best væri að fela bæði kola- og steinolíueinokun ákveðnum mönnum fyrir ákveðið verð. Ef einkasala verður á þessum vörutegundum, gætu útgerðarmenn sjeð fyrir um langan tíma, hvað þær muni kosta. Kol og olía yrði því fastur liður á áætlunum þeirra, en ekki óútreiknanlegur, eins og nú er.