18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í C-deild Alþingistíðinda. (3117)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg ætla ekki að lengja umræðurnar. Vildi að eins geta þess viðvíkjandi orðum hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.), að varhugavert væri, að stjórnin seldi verslunina á leigu. Það er tilgangurinn, að hún færi sjálf með hana, og fengi vel hæfan mann til að standa fyrir henni. Landsstjórnin skipaði aftur á hann endurskoðara. Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) taldi og, að ýmsir myndu komast að betri kjörum um kolaflutning en landsstjórnin; menn gætu flutt á sínum eigin skipum, sem færu eða kæmu annars farmlaus. En jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, að landsstjórnin sæti lagi um að láta þessi skip fá kolafarm, enda myndu kaupmenn vita vel, að slíkan farm væri hægt að fá, og gætu þá snúið sjer beint til landsstjórnarinnar.

Viðvíkjandi orðalagi tillögunnar skal þess getið, að það er vilji nefndarinnar, að æskilegt sje, að þetta mál nái fram að ganga, en auðvitað útilokar það ekki, að landsstjórnin fari með það eins og sum önnur mál, vanræki bæði að undirbúa það og leggja fyrir næsta þing. En þá gerir hún þinginu grein fyrir því og ástæðum sínum, og sætir hún þá þeim vítum, er henni ber fyrir slíka vanrækslu, ef þinginu þykir svo.