18.07.1917
Neðri deild: 13. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

70. mál, einkasala landssjóðs á kolum

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Jeg neyðist til að svara hv. þm. Dala. (B.J.), þótt þess hefði ekki átt að vera þörf, því að sömu atriðum vorum við hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) búnir að svara áður. En hann hefir ekki heyrt það, og er það hans skuld, er hann var ekki við. Það er ætíð leiðinlegt, að þurfa að endurtaka orð sín, og ekki síst á þessum tímum, er spara á þingtíðindin.

Hann talaði, þessi hv. þm. (B.J.), um orðalag till., og var það sama athugasemdin og frá hv. þm. V.-Ísf. (M.Ó.). En það, að landsstjórnin á að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi frv. um einkasölu, segir ekki, að landsstjórnin geri það, sjái hún sjer það ekki fært. Ef hún gerir það ekki, og þingið tekur röksemdir hennar gildar, þá er það mál búið. Þótt orðalagið yrði öðruvísi en er á till., kæmi ekki annað út. Meining þeirra, sem farið hafa með þetta mál, er sú, að einkasalan skuli komast á, ef þau tök eru fyrir hendi, er gera það kleift.

Hann (B.J.) gat um, að hann kysi heldur, eins og hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), samkepni, jafnvel samkepni landssjóðs sjálfs, en einkasölu. Jeg svaraði því áður, og er óþarfi að endurtaka það. En fyrst að hv. þm. Dala. (B. J.) biður nú enn um orðið, tel jeg rjett að svara því. (B. J.: Jeg óska ekki eftir endurtekningum). Þegar þingmaðurinn vill ekki hlusta á umræður, sem hjer fara fram, veitti honum ekki af að fá svar við endurtekningum sínum. En verið getur, að jafnvel hann (B.J.) álíti ekki vert að svara hv. þm. Dala. (B J.), og er það þá sök sjer að láta það undir höfuð leggjast. Hann gat þess, að sú leið, er þingið fer, ef það samþykkir till., væri eins greið til að hækka verð vörunnar, að landssjóður gæti hækkað gjaldið til sín eftir vild. En við því er engu hættara. Þingið getur lagt á þá tolla og skatta, er því sýnist. Þingið getur komið gjöldum á allar aðfluttar vörur, og einkasöluvörum landssjóðs væri engu hættara en öðrum vörum. Að öðru leyti álít jeg ekki þörf að svara hv. þm. Dala. (B. J.).