02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

200. mál, hagtæring og meðferð matvæla

Gísli Sveinsson:

Það er óþarft að lengja mikið umr. um þetta mál. Jeg vildi láta í ljós undrun mína yfir því, að þessi mikla bjargráðanefnd hefir ekki fundið neitt betra bjargráð en þessa till. Auðvitað kemur þessi till. ekki fram sem hugsjón þessarar nefndar, heldur frá nokkrum konum, kvenrjettindakonum, hjer í Reykjavík, er skrifað hafa bjargráðanefnd og beðist þess, að skipuð væri nú ný nefnd, þar sem þær gætu komist að. Það hefir komið fram í ræðum ýmsra þingmanna, að nóg sje komið af nefndum, og mun mega færa rök að því, að þetta mikla nefndafargan út af dýrtíðinni hafi orðið til svo mikils trafala, bæði hjer í bænum og úti um land, að ekki verði reiknað í peningum. Býst jeg því við, að svo gæti farið um þessa nefnd, að mikið færi til ónýtis af matvælum í höndum hennar. En jeg tel það ver farið en heima setið að skipa nefndir, sem ekki vita, hvað þær eiga að gera, og stjórnin því síður.

Hjer eru færð þau rök, að konur þurfi að vera í nefndinni til þess að sjá heimilum og hagtæringu (! !) matvæla borgið. Jeg skal geta þess, að jeg er hissa á því, að háttv. þm. Dala. (B. J.) skuli verða til þess að bera orðið „hagtæring“ hjer inn á þing. Það er orðskrípi, að jeg tel, og jeg kannast alls ekki við það. (B. J.: Vanþekking!). Jeg held, að það sje orðskrípi, sem almenningur úti um land skilur ekki. (E. A.: Eru Skaftfellingar svo illa að sjer ?). Þess ber að geta um röksemdirnar fyrir þessari nefndarskipun, að svo er að sjá, sem hvorki þessar konur nje bjargráðanefnd hafi annað í huga en að konur sjeu að eins til á sárfáum heimilum, og því þurfi konur í þessa nefnd, til að kenna karlmönnunum á konulausu heimilunum hagtæringu (!!) matvæla. Jeg hygg þó, að konur muni vera á flestum heimilum, og þótt matreiðslukonur eða kvenrjettindakonur væru skipaðar í nefnd hjer í Reykjavík til að sulla saman matarefnum á ýmsan hátt, held jeg, að enginn mundi apa það eftir, að minsta kosti ekki fyr en sannreynt væri, að það væri til nytja. Í annan stað er jeg mjög efandi um, að það komi að haldi nú í dýrtíðinni, að reyna að treina matvæli með því að blanda þau á annan hátt en tíðkast hefir öldum saman hjer í landinu. Einnig ber þess að gæta, að þótt hægt sje hjer í Reykjavík að blanda saman ýmsum efnum, þá er ekki eins fjölskrúðugt úti um sveitir. Á sveitaheimilum eru tíðast að eins til einfaldar matartegundir, sem fólk hefir vanist að hagnýta sjer á vissan hátt.

Ef nokkuð er hægt að gera í því að kenna mönnum hagnýting matvæla, lægi miklu nær að fela Búnaðarfjelagi Íslands málið og styrkja það til að nota krafta þeirra sjerfræðinga, er það hefir ráð á, til að kenna landsmönnum þess háttar.

Jeg sje ekki, að þau rök hafi verið færð fyrir tillögu þessari, að til neins sje að samþykkja hana. Jeg tel bana blábert „humbug“ og mun greiða atkvæði móti henni.