02.08.1917
Neðri deild: 23. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í C-deild Alþingistíðinda. (3144)

200. mál, hagtæring og meðferð matvæla

Pjetur Ottesen:

Það mun enginn nema hv. þm. Dala. (B. J.) hafa skilið ræðu mína sem meðmæli með þessari tillögu, sem þessi þm. virðist hafa tekið svo miklu ástfóstri við, því að jeg er, eins og jeg tók skýrt fram, eindregið á móti því, að þessi nefnd verði skipuð. Ekki svo að skilja, að jeg efist um, að starfsemi kvenna geti verið mjög góð, einnig á þessu sviði, ef þær gætu notið sín. En jeg er hræddur um, að þessi nefndarskipun kæmi ekki að tilætluðum notum. Jeg er ekki í neinum vafa um, að búsmæðranámsskeið kæmu að miklu meiri notum heldur en prentaðir bæklingar, þótt þeim væri dreift út um landið. Jeg geri sem sje ekki ráð fyrir, að konur þær, sem skipuðu þessa nefnd, færu að ferðast um landið til að halda slík námsskeið. Starfsemi þeirra mundi eingöngu verða fólgin í því að gefa út bæklinga til leiðbeiningar, og á því er ekki ávalt mikið að græða.

Háttv. þm. Dala. (B.J.) þarf ekki að koma ókunnuglega fyrir, hvernig jeg stend í þessu máli. Jeg skýrði frá því í nefndinni, að jeg mundi verða á móti tillögunni, þó að jeg setti mig ekki upp á móti því, að tillagan væri borin upp í nafni nefndarinnar.