16.07.1917
Neðri deild: 11. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í C-deild Alþingistíðinda. (3155)

53. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Jeg vil að eins bera fram örstutt þakkarávarp til hv. flutningsmanna þessa frv., því að mjer þykir ávalt vænt um, þegar borin eru fram frumvörp, sem jeg hefi áður komið með, en þingið hefir drepið fyrir mjer. Jeg skal geta þess, úr því að jeg á annað borð er að flytja þetta þakkarávarp, að það er undarlegt, hve sárt menn finna til þess, að sum mál eru illa undirbúin. Þetta mál, sem nú er á döfinni, var fyrst tekið til meðferðar af milliþinganefnd, svo á 2 þingum og síðast af þessum hv. flm. Aftur á móti man jeg eftir öðrum frv., sem hafa dottið inn í deildina sem dögg af himni eða frjósamar árstíðir, og verið rekin í gegn með svo miklum hraða, að 5 mínúturnar hafa verið sem 2 nætur, og með afbrigðum frá þingsköpum hafa farið fram 6 umræður á 2 tímum.

Þetta er auðvitað nokkuð undarlegt, en jeg skal nú samt ekki tefja tímann með því að fara frekar út í þá sálma. Jeg vona að eins, að þingmenn sjái, hve því um líkt er sjálfu sjer samkvæmt og þingmannlegt.