30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (3159)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Að fjárhagsnefnd hefir mælt með þessu frv. kemur ekki til af því, að henni finnist æskilegt að leggja þau höft á viðskiftalífið, sem stimpilgjald óneitanlega gerir. Nefndinni fanst, að, eins og nú standa sakir, væri nauðsynlegt að afla landssjóði tekna, og stimpilgjald er nokkurn veginn víst gjald, en tollar og þess háttar tekjur eru á yfirstandandi tíma óvissar. Nefndinni var líka ljóst, að á yfirstandandi þingi væri ekki hægt að taka til endurskoðunar skattalöggjöfina í heild, meðal annars af því, að svo getur farið, að vjer að ófriðnum loknum verðum að breyta öllu okkar skattakerfi og laga það ef til vill eftir sköttum annara þjóða, sem vitanlega munu, að loknum ófriðnum, reyna að velta sköttum á hlutlausar þjóðir. Og ef svo fer hjer á landi, að miklar eignir safnast á einstakar hendur, verður að ná sem mestum sköttum af þeim. Af þessu leiðir, að ekki er hægt að eiga við skattalöggjöfina nú, nema til bráðabirgða, og þetta frv. er því að eins bráðabirgðabót. Það kann að sönnu að sýnast hart að leggja þetta gjald jafnt á alla, sem viðskifti hafa, og eigi er það heldur eftirsóknarvert að leggja höft á kaup og sölu, en þó eru kaup og sölur oft óþarfi, og ef eingöngu er um fjárbrask að ræða, er skatturinn alls ekki viðsjárverður, og þar mun hann gefa drýgstar tekjur. Allir skattar koma að einhverju leyti ranglátlega niður, svo að eigi er að undra, þótt svo kunni að verða um stimpilgjaldið.

Hvað snertir sjálft frv., þá er það sniðið eftir frv. skattamálanefndarinnar 1907, en nefndin hefir líka haft til hliðsjónar það, sem talað hefir verið um málið á síðari þingum, tínt til úr þeim umræðum og brtt., sem fram hafa komið, það, sem hún hefir álitið best, og bætt allmiklu við frá sjálfri sjer.

Ein af þeim brtt., er máli skifta, er við 6. gr., sem sje sú, að stimpla byggingarbrjef og leigusamninga, erfðaskrár, dánargjafir og gjafarfa, með föstu gjaldi. Enn fremur hefir nefndinni virst rjett að fella úr sömu grein ákvæðin um stimplun rjettarskjala, því að nú er orðið svo dýrt að leita rjettar síns að lögum, að tæplega dugir að leggja frekari gjöld á þá menn, sem þess þurfa. Þá leggur og nefndin til, að bætt verði inn í frv. nýrri grein, er verði 7. gr. Það er langstærsta brtt. nefndarinnar, og gengur út á að stimpla alla víxla eða ávísanir, sem seljast í bönkum eða öðrum lánsstofnunum, svo og óþinglesin skuldabrjef, er einstakir menn eða fjelög selja slíkum stofnunum, stimpla slík brjef með 50 aurum af hverju þúsundi, eða broti úr þúsundi, er víxill, skuldabrjef eða ávísun nemur. Jeg held, að þetta gjald nemi naumast minnu en 30—40 þús. kr. á ári. Landsbankinn keypti á síðasta ári víxla og sjálfsskuldarábyrgðarbrjef fyrir um 23 milj. kr., og jeg geri ráð fyrir, að Íslandsbanki hafi keypt fyrir meira. Það er því óhætt að gera ráð fyrir 50 milj. kr. umsetningu á þessum verðbrjefum, og ef tekið er 50 aura gjald af hverjum þúsund kr., nemur það 25000 kr. á ári, en svo er takandi tillit til, að ef 50 aurar verða líka greiddir af parti úr þúsund kr., eykst upphæðin töluvert við það. Að öllu samantöldu má gera ráð fyrir, að tekjur þær, er fást inn með þessu frv., ef það verður að lögum, muni nema, ef viðskiftalífið helst óbreytt, alt að 100000 kr. á ári. Eignir hafa hækkað stórum í verði nú á síðustu tímum, og jafnframt hækkar þessi skattur. Um aðrar brtt. skal jeg svo ekki fjölyrða; þær eru flestar lítilfjörlegar, eða að eins orðabreytingar.