30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í C-deild Alþingistíðinda. (3161)

53. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Ekki einfalt líf, en einfalda skynsemi. Annars hygg jeg, að ekki þurfi að sýna mikla einfeldni í viðskiftum, þótt stimpilgjald yrði leitt í lög. Jeg hefi komið með þetta mál áður inn á tvö þing, og er hv. flutningsmönnum þakklátur fyrir, að þeir koma með það nú, og sömuleiðis nefndinni, sem um það hefir fjallað. Jeg sje, að hún hefir nú notað það nýtilegt, sem fram hafði komið á fvrri þingum í þessu máli. Ekki get jeg fallist á það, að öll viðskifti þurfi að verða flóknari, þótt stimpilgjaldið verði lögleitt, og þótt menn verði að kaupa stimpilmerki á sama hátt og frímerki. Það er svo einfalt, að þetta er að því leyti fundið fje. Þetta er að því leyti mjög rjettlátt gjald, að landssjóður fær með því tekjur af ýmsum stórkaupum og sölum, sem ekkert fengist af ella. Það, sem helst lendir á almenningi eru þessir 50 aurar af víxlum og ávísunum, en ef það er mjög tilfinnanlegt gjald, finst mjer ekki síður ástæða fyrir hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að krefjast þess, að bankarnir leggi niður þann ósið, að hækka forvexti af víxli, ef nýr víxill er tekinn í stað gamals. Það er ósæmilegt gjald, og væri nær að krefjast breytingar á því heldur en kvarta undan þessu stimpilgjaldi. (Sv. Ó.: Það eru viðskiftamennirnir, en ekki bankinn, sem borga stimpilgjaldið). Það er rjett, en það eru líka viðskiftamennirnir, sem borga hitt.

Jeg ætla ekki að halda langa ræðu, því að jeg er alveg samþ. hv. frsm. (M.G.). Það er vitanlegt, að rjettlætið er ekki heilt, enda mun leitun á þeim skatti, sem aldrei getur komið ranglátlega niður. Jeg held því, að hv. þingheimur geti með góðri samvisku samþykt þetta stimpilgjald, því að það er rjettlátara en flestir aðrir tekjustofnar landssjóðs, að öllum tollum meðtöldum.