30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

53. mál, stimpilgjald

Þorsteinn Jónsson:

Hv. frsm (M. G.) tók það að vísu fram, hverjar ástæður fjárhagsnefndin hafði til að mæla með frv. Jeg var áður á þeirri skoðun, að það væri neyðarúrræði að ganga þessa leið, en sje þó engar leiðir færilegri en þessa, ásamt öðrum þeim leiðum, er fjárhagsnefndin ætlar að fara, til að ná peningum í landssjóðinn. Eins og hv. frsm. (M. G.) tók fram, er það ekki meining fjárhagsnefndar að fylgja þessum lögum fram nema um stundarsakir, eða meðan ekki er fundinn fastur grundvöllur undir skattalöggjöfina.

H v. 1 .þm. S.-M. (Sv. Ó.) áleit heppilegra að jafna þessu gjaldi niður á öll hreppsfjelög í landinu, og þau jöfnuðu því síðan á hreppsbúa, eins og aukaútsvari. Slík niðurjöfnun yrði mjög af handahófi. Það er ekki rjett að jafna því niður á hreppana eftir fólksfjölda, því að viðskiftaveltan og fjármagn hreppanna fer ekki líkt því altaf eftir höfðatölu.

Mjer er fullljóst, að þetta gjald er leiðinlega margbrotið, og mikil fyrirhöfn við að innheimta það, en í flestum tilfellum verður það þó ekki tilfinnanlegt, því að hjer er oftast um smáupphæðir að ræða, sem lítið munar um. Ef um stórar upphæðir og stóra víxla er að ræða, eiga vanalega í hlut stóreignamenn eða stórbraskarar, og er líklegt, að þeir verði ekki lengi að ná upp sem svarar þessu gjaldi, ef þeir fá peninga í hendur sínar, svo að bankalánin verða þeim gróðavegur. Jeg er, sem sagt, ekki vel ánægður með þetta gjald, en verð þó að vera því fylgjandi, að það verði lagt á, því að jeg álít ekki sæmilegt af þessu þingi að skilja svo við fjármálin, að það reyni ekki að auka tekjur landssjóðs.