30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í C-deild Alþingistíðinda. (3164)

53. mál, stimpilgjald

Gísli Sveinsson:

Af því, að svo sjerstaklega stendur á, að nefndin mælir fram með frv. með hangandi hendi, þá er ekki ófyrirsynju, að fleiri taki til máls, sjerstaklega af því, að það hefir kent ekki lítils misskilnings í ræðum sumra hv. þm.

Það hefir komið fram í ræðum þeirra hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að þeir gerðu lítið úr þeim tekjum, sem landssjóður fengi, þótt frv. yrði að lögum. Það dugir ekki í þessu sambandi að einblína á skattanefndina 1907. Þeir sáu engin tök á að reikna út, hvað gjaldið mundi nema. Þeir áætluðu því ekki neitt annað en það, hvað það mundi nema minst. Þótt ekki sje nú gengið út frá, að hið almenna stimpilgjald nemi meiru en því, sem sú nefnd áætlaði, sem vitanlega nær ekki nokkurri átt, þá bætist nú svo mikið við hjer, samkvæmt tillögum fjárhagsnefndar um stimpilgjald, af öllum bankaafgreiðslum, að gjaldið verður að minsta kosti 50—60 þús. kr. — Þessir sömu háttv. þingmenn töldu báðir, að það mundi tæplega svara kostnaði að innheimta gjaldið. Það getur þó ekki verið meiningin, að þeir ætlist til, að greitt sje meira en 2% í innheimtulaun, svo að ekki yrði beini kostnaðurinn til mikils óhagræðis. Um óbeinu fyrirhöfnina þarf ekki að ræða í þessu sambandi, því að það er nú einu sinni svo, að þjóðfjelögin leggja hana á borgarana og meta hana ekki til peninga. En vitanlega eru það fleiri gjöld en stimpilgjald, sem hafa óbeina fyrirhöfn í för með sjer. Það hafa öll gjöld, og um slíkt fæst löggjöfin ekki.

Hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) sagði, að ekki mætti samþ. þetta frv., því að stimpilgjaldið hefði áður að nokkru verið tekið upp við ákvörðunina á aukatekjum landssjóðs. Þetta er nú talsvert málum blandað, því að aukatekjurnar hafa ekki verið hækkaðar frá því, sem skattanefndin lagði til, nema þinglestrargjaldið dálítið. Það var sem sje ekki látið sitja við tillögur nefndarinnar um að láta hámark þinglestrargjaldsins vera 12 kr., og sett í staðinn kr. 1,00 af þúsundi. Það nær því ekki nokkurri átt að halda því fram, að stimpilgjaldið sje komið þarna í lög. Jeg skal þá loks minnast á orð hæstv. fjármálaráðh. (B.K.) um sparsemi fjárhagsnefndar að „skaffa“ landssjóði tekjur. Mjer virðist það koma úr hörðustu átt, að hæstv. fjármálaráðherra skuli koma fram með slík ummæli, þegar stjórnin sjálf hefir ekkert gert til þess að halda við tekjum landssjóðs eða auka við þær.

Aðalatriðið í ræðu hv. fjárm.ráðh. (B.K.) var um víxlana. Nefndin hafði ekki hugsað sjer að undanskilja „tjekka“, en álitamál er það nú samt, hvort það væri ekki betra, og væri rjett, að nefndin athugaði það nánar. Aftur á móti er nefndin mótfallin því, að ekki sje tekið gjald af lágum víxlum. Með því að gera það ekki væri gefið undir fótinn með að fara í kringum lögin, því að þá þyrfti ekki annað en taka nógu marga smávíxla, þótt maðurinn þyrfti að fá stóran víxil eða mikla upphæð alls. Líku máli gegnir með tímatakmarkið, þ. e. taka ekki gjald af „stuttum“ víxlum. Það mundi líka leiða til þess að farið yrði í kringum lögin, og því hlýtur nefndin að vera því mótfallin. Enda þeir eins vel færir að bera gjaldið, sem víxla taka til skamms tíma, eins og hinir; þeir eru einmitt einatt betur efnum búnir.