30.07.1917
Neðri deild: 20. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Skal ekki vera langorður. Byrja á að svara stuttlega háttv. 1. þm. S. M. (Sv. Ó.). Hann taldi ekki mundu borga sig að innheimta þessi gjöld. Jeg held, að við höfum önnur lög, sem valda meiri fyrirhöfn við innheimtu og gefa minni tekjur, því að slíkar tekjur sem þessar geta numið miklu, t. d. við skipakaup, sem velta á miljónum.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) taldi, að ekki mundi nást í braskarana. Það er rjett, að ekki mundi nást í alla braskara með þessum lögum, en það mundi nást í marga, og því sjálfsagt að reyna þessa leið.

Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), hjelt, að tekjurnar mundu ekki nema meiru en svo sem 30 þús. kr. Jeg hafði þó tekið það fram áður, að tekjurnar mundu nema miklu meiru, og fært rök fyrir.

Nefndin hafði ekki sjerstaklega tjekka í huga, er hún ákvað, að láta gjaldið ná til ávísana, en það má athuga það til 3. umr., hvort rjett sje að láta gjaldið líka ná til þeirra.

Jeg sje ekki, á hverju það byggist, að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) vill láta víxla, sem borgast við sýningu, vera undanþegna skatti. Jeg held, að þeir geti eins vel þolað skatt og hinir. Það varð sömuleiðis ofan á í nefndinni að taka líka með framlengda víxla, því að það er ómögulegt að sjá það í bókum bankans, hvað er framlengdur víxill og hvað ekki.

Hvað snertir smávíxla, 10 kr. víxla og aðra því um líka, þá ætti ekki að gera mikið til, þótt borga eigi af þeim 50 aura. Menn geta valið á milli, hvort þeir vilja heldur hætta við að taka svo lága víxla, eða borga þessa upphæð.

Annars hafa þessar athugasemdir, sem fram hafa komið, ekki sýnt annað en að hægt er að benda á tilfelli, þar sem þessi skattur kemur ranglátlega niður. En það dugir ekki að hengja sig í þau fáu tilfelli.

Hvað snertir reglurnar um stimplunina í 7. gr. frv., skal þess getið, að nefndin setti reglurnar svona einfaldar til að ljetta undir í byrjun. Hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) spurði, hvort víxlar, sem sendir eru til innheimtu eða samþykkis, falli undir þetta gjald. Svo er ekki. Það eru að eins víxlar, sem seldir eru, sem skatturinn er lagður á.