03.08.1917
Neðri deild: 24. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í C-deild Alþingistíðinda. (3173)

53. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) gat þess, að ekki mundi rjett athugað, að útlendingar greiddu stimpilgjöld af víxlum, sem þeir senda til greiðslu við bankana hjer. Jeg hefi þær upplýsingar frá hæstv. fjármálaráðherra

(B. K.). Og eftir því, sem jeg þekki sjálfur til þessara mála, þá held jeg, að það sje áreiðanlega rjett, að sá greiði gjaldið, sem víxilinn á, nema þá því að eins, að víxillinn sje ekki innleystur og verði endursendur til málsóknar. Hvað því viðvíkur, að gjaldið verði lagt á vöru, sem seld er landsmönnum, og að þeir greiði gjaldið þannig óbeinlínis, með því að gefa meira fyrir vöruna, þá getur vel verið, að þetta sje rjett. En þótt svo sje, þá get jeg ekki betur sjeð en að jafnrjettmætt sje að greiða stimpilgjald af þeim víxlum sem öðrum. Háttv. þingmenn eru beðnir að muna eftir því, af hvaða ástæðum fjárhagsnefnd hefir mælt með þessu frv. Það er eingöngu til þess að auka tekjur landsjóðs. Og jeg skil ekki, hvernig þeim þingmanni er farið, sem finnur ekki knýjandi nauðsyn til þess að auka tekjur landssjóðs, eins og nú er ástatt, þótt ekki sjeu sem æskilegastar leiðir, sem á er bent. Mjer finst, að háttv. þingmenn verði að athuga þetta alvarlega, verði að leggja eitthvað á sig til þess, að ráðið verði fram úr fjárhagsvandræðunum. Mjer vitanlega hefir háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) ekki bent á neina og því síður betri leið til fjáröflunar en þá, sem frv. fer fram á.