25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 864 í C-deild Alþingistíðinda. (3180)

53. mál, stimpilgjald

Eggert Pálsson:

Mjer finst jeg ekki geta hleypt þessu frv. fram hjá mjer án þess að segja nokkur orð. Mig furðar á því, að nefndin segir í áliti sínu, að mál þetta hafi legið í þagnargildi síðan 1913. Þetta er ekki rjett, því að það var borið fram á þinginu 1915, og fjekk þá bestar undirtektir, sem það hefir enn fengið á þingi. Frumvarpið, sem þá lá fyrir, var afgreitt með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að stjórnin taki mál þetta til rækilegrar yfirvegunar og leggi fyrir næsta þing frumvarp til laga um stimpilgjald, sjerstaklega lágt stimpilgjald af víxlum, ávísunum og kvittunum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Þingið 1915 skildi þannig við málið, og nú skyldu menn ætla, að stjórnin hefði orðið við tilmælum hv. neðri deildar og tekið málið til rækilegrar yfirvegunar. En nú hefir það komið í ljós, svo að segja svart á hvítu, að stjórnin hefir alls ekki sint málinu neitt. Samt finnur hv. fjárhagsnefnd ástæðu til að vísa málinu aftur til stjórnarinnar, þó að hún hafi látið málið fara fram hjá sjer athugunarlaust. Jeg skil ekki, að tilætlunin geti verið nein önnur, með þessari tillögu fjárhagsnefndar, en að láta málið deyja. Það dugði ekki að vísa því til stjórnarinnar 1915, með áminningu um að yfirvega það rækilega, og þá er engin ástæða til þess að ímynda sjer, að það dugi fremur nú athugasemdalaust. Leið þessi er bersýnilega valin til þess eins að láta málið deyja á fínan hátt. En er það rjett að hafna þessum tekjustofni ár eftir ár? Það er viðurkent, að hjer sje um góðan tekjustofn að ræða, en samt er málið drepið þing eftir þing. Jeg skal játa, að það er ýmsum erfiðleikum bundið að framkvæma þessi lög, en þeir erfiðleikar koma aðallega niður á stjórnarvöldum, sýslumönnum og bæjarfógetum. Þessi skattur mundi aldrei koma þungt niður á alþýðu manna. Og víst er um það, að margir skattar eru ver liðnir en þessi mundi verða, ef hann kæmist á. En því verður ekki neitað, að hjer er um talsverðan tekjuauka að ræða. Jeg hefi vitanlega ekki reiknað út, hve mikill hann verður, en fróðir menn hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hann mundi nema um 100,000 kr. á ári. (H. H.: Á ári?) Já, víst hátt upp í það. (H. H.: Nei, í hæsta lagi 70—80,000 kr. á fjárhagstímabili). Jeg skal ekki um það þræta, hefi sem sagt ekki reiknað það saman sjálfur, en glöggskygnir menn hafa fullyrt, að hann mundi gefa fast að 100 þús. kr. í árlegar tekjur, eftir þær breytingar og viðauka, sem háttv. Nd. hefir gert á frumvarpinu En þótt hjer kynni einhverju að skakka, þá er alt um það hjer um talsverðan tekjustofn að ræða, jafnvel þótt eigi gefi nema um 100,000 kr. á fjárhagstímabili. Mætti margt við það fje gera, og ekki rjett að fleygja því frá sjer.

Menn mega ekki láta hvert fjárhagstímabilið á fætur öðru líða svo, að landssjóði verði ekki sjeð fyrir auknum tekjum. Jeg játa, að fjárhagsnefnd Nd. hefir sýnt lofsverða viðleitni í því að afla landssjóði tekna, meðal annars með því að taka upp frv. þetta. En fjárhagsnefnd Ed. hefir ekki sýnt sömu viðleitnina; öllu heldur hefir hún leitast við að drepa frv. frá fjárhagsnefnd Nd. Það er þó ekki ljett gert. Fjárhagsnefnd Ed. er jafnskylt að benda á leiðir til að auka tekjur landsins sem fjárhagsnefnd Nd. Og geti hún ekki fallist á till. fjárhagsnefndar Nd., ætti hún að reyna að útvega fje á annan hátt, en það hefir hún látið ógert.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta mál. Vildi að eins lýsa yfir skoðun minni á því. Og jeg hefi altaf álitið, að við höfum ekki völ á betri tekjustofni en þessum, ef landið þarfnast aukinna tekna; þótt tekjurnar af stimpilgjaldinu kunni að

vísu ekki að geta talist stórkostlegar, eru þær þó meiri en svo, að menn megi kasta þeim frá sjer.