17.07.1917
Neðri deild: 12. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í C-deild Alþingistíðinda. (3188)

57. mál, laxveiði

Þórarinn Jónsson:

Ýmislegt mætti um frv. segja. Að sinni ætla jeg þó ekki að gera það að rækilegu umræðuefni.

Tilgangurinn með frv. mun vera tvennur, 1) að auka friðun á laxi og 2) að tryggja þeim veiðirjett, sem búa ofarlega við ár.

Hinu fyrra verður ekki náð með því að færa veiðitímann aftur. Þvert á móti yrði það til ills eins. Jeg hefi veitt því eftirtekt, að smálaxinn gengur í árnar seinni hluta veiðitímans. Sje hann þá þurkaður upp, er það gefin reynsla, þar sem jeg þekki til, að minna af stærra laxi gengur árið eftir. Þetta er líka ofureðlilegt og einfalt, ef trúa á því, sem rannsóknir um laxgöngu hafa leitt í ljós, að laxinn gangi í sína fósturá. Það er því mikilsvert, að ekki sje veitt fram yfir síðustu göngu smálaxins í árnar.

Ekki veit jeg heldur, hvort hinum tilganginum, að jafna veiðinni með þeim sem við árnar búa, verður náð, þó að frv. næði fram að ganga. Vald laxveiðistjórnanna er látið ná oflangt; t. d. er þeim gefið vald til að taka af mönnum lögn. Þetta er mjög varhugavert, því að engin trygging, eða jafnvel líkur, eru fyrir því, að nefndarmennirnir beri meira skyn á laxveiðar en veiðieigendurnir sjálfir. Þessa vildi jeg að eins geta til athugunar fyrir væntanlega nefnd. Jeg er samþykkur því, að rjettur þeirra, sem búa upp með ám, sje trygður, en svo skal það gera, að hinir, sem neðar búa, sjeu ekki sviftir sínum rjettindum.