10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 876 í C-deild Alþingistíðinda. (3195)

57. mál, laxveiði

Jörundur Brynjólfsson:

Hv. frsm. (S. S.) er óánægður við mig út af því, að jeg hafi sagt, að hann hefði ekki vit á þessu máli, nje nefndin í heild sinni. Jeg held nú ekki, að jeg hafi viðhaft þessi orð, en þótt svo væri, þá gefur nefndarálitið mjer fylsta rjett til þess. Nefndin t d. bendir á, að það hafi eitt sinn verið ósk Árnesinga, að þeir fengju að láta net liggja í ánum, án þess að taka þau nokkurn tíma upp um veiðitímann. Þetta hygg jeg að sje alment játað, að sje hættulegt allri laxveiði. — Nefndin segir, að ekki hafi verið á málið minst á þingmálafundum, og ekkert hafi orðið vart við neinar óskir um endurbætur á þessum lögum. Nefndin er yfir höfuð að tína sitt hvað til eftir öðrum, en segir ekkert frá eigin brjósti. Það bendir ótvírætt á það, að nefndin sjálf hafi ekki mikla skoðun á málinu, hvað sem þekkingu hennar á því kann að líða.

Annara skal jeg ekki deila meir við hv. frsm. (S. S.). Vænti þess, að stjórnin láti sjer ant um málið.